Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:47:57 (6425)

2000-04-11 23:47:57# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef gert tillögu um að málinu verði vísað til allshn. Ég tel það í samræmi við þingsköp að gera það. Það er aftur á móti í samræmi við þingsköp að senda stjórnarskrármál til sérnefnda, um það er ákvæði í þingsköpunum. Það á hins vegar ekki við um kosningalagamál. Þar er um að ræða hefðbundin frv. sem heyra undir ákvæðin um eðlilega verkaskiptingu þingnefnda og samræmi við verkaskiptingu í Stjórnarráðinu.

Umræðan hér hefur ekki komið mér á óvart. Þeir hafa talað sem eru á móti þessu máli, sem vilja láta sjónarmið sín koma fram. Það er fínt og kemur mér ekki á óvart. Ég geri ráð fyrir því að langflestir þeirra sem ekki hafa tekið hér til máls og eru ekki viðstaddir umræðuna séu samþykkir meginsjónarmiðum þessa frv. Ég er sannfærður um að þetta frv. hefur í þingflokkum, öðrum en þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og kannski Frjálslynda flokksins, yfirgnæfandi stuðning. Málið hefur verið kynnt þannig í undirbúningsstarfinu að þingflokkar hafa fengið að fylgjast með vinnslu málsins í vetur og er vart að vænta neinna óvæntra tíðinda í því efni.

Það var alltaf vitað að einstakir hv. þm. í Sjálfstfl. og Framsfl. væru á móti þessu. Það kemur engum á óvart að vinstri grænir séu á móti frv. Hverjum kemur það á óvart? Í þessari umræðu er fátt nýtt þó auðvitað sé ánægjulegt að hlusta á þessi sjónarmið og þingmenn vinstri grænna taka undir hver með öðrum eins og þeir hafa gert hér í allt kvöld.