2000-04-12 00:29:06# 125. lþ. 97.24 fundur 567. mál: #A rannsókn sjóslysa# frv. 68/2000, 568. mál: #A siglingalög# (sjópróf) frv. 69/2000, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[24:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem frv. hefur fengið hjá hv. þm. og tek undir þær ábendingar og athugasemdir sem fram komu hjá þeim um nauðsyn þess að nýta rannsóknir til að vinna að því eins og kostur er að koma í veg fyrir slys. Enda er það tilgangur þessa frv. og þeirra laga sem vonandi verða að veruleika innan tíðar.

Sá vilji þeirra hv. þm. sem hér töluðu kom skýrt fram, að nýta reynslu af starfi flugslysanefndar og í grg. með frv. er gert ráð fyrir að svo skuli gert.

[24:30]

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var með efasemdir um kostnaðarmatið sem fylgir frv. Það er ekki gert ráð fyrir að kostnaðarauki verði af þessum breytingum. Það verður reynslan auðvitað að leiða í ljós. Grundvallarbreytingin sem hér er lögð til er að rannsóknarnefnd sjóslysa vinni fyrst og fremst að því að finna lausnir til að koma í veg fyrir slys en sé ekki rannsóknarréttur yfir þeim sem verða fyrir slysum.

Að öðru leyti tel ég ekki þurfa að orðlengja þetta frekar. Ég þakka fyrir ágætar undirtektir við frv. og vænti þess að það fái skjóta afgreiðslu í þinginu.