2000-04-12 01:15:18# 125. lþ. 97.28 fundur 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[25:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ekki verður haldið áfram andsvörum enda er þeim tíma lokið. Ég vil nýta mér seinni ræðutíma minn til að ljúka þeim parti ræðunnar sem ég kom ekki að í fyrri umferð og gæti það væntanlega orðið til að auðvelda þeim sem eiga eftir að tala að koma enn frekar inn í málið.

Vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um fjármögnun liggur það vonandi fyrir að vegna eignasölu, sem hefur nú þegar farið fram, skapar það rýmri stöðu fyrir ríkissjóð að geta ráðist í þær framkvæmdir sem við erum að ræða um, þ.e. jarðgöng. Auðvitað kemur það fjármagn úr ríkissjóði sem þarf til að framkvæma í vegagerð hvort sem um er að ræða vegi eða jarðgöng. Nauðsynlegt er að það komi fram. En eignasalan auðveldar okkur framgang málsins. Það er mergurinn málsins.

Ég hafði í fyrri ræðu minni farið nokkuð yfir áformin hvað varðar göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar en þar er gert ráð fyrir að hefja rannsóknir strax í ár eins og um jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Í framhaldi af þeim verður síðan unnið að hönnun og útboðsgögnum þannig að verktilhögun verði sem hagkvæmust en um er að ræða stórt og flókið verkefni þar sem eru göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Töluverð vinna verður t.d. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Gróflega má áætla að undirbúningur framkvæmda kosti um 200 millj. kr. sem er inni í heildarkostnaðaráætlun fyrir verkið. Dýrasti hluti undirbúningsins eru kjarnaboranir sem verða sérstaklega flóknar þar eð engin vegtenging er til Héðinsfjarðar.

Í þáltill. er gert ráð fyrir að rannsóknir og annar undirbúningur fyrir göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar standi yfir í ár og á næsta ári. Ákvörðun um útboð þessara verkefna og í hvort þeirra verður ráðist fyrst eða hvort þau verði unnin samhliða verður tekin þegar rannsóknir eru komnar á góðan rekspöl eins og áður var nefnt. Nokkuð erfitt er að meta nákvæmlega þann sparnað sem hlýst af því að bjóða út saman nokkur göng sem unnin eru samfellt hver á eftir öðrum eða jafnvel samhliða í stað þess að bjóða út hver göng fyrir sig. Sparnaðurinn felst aðallega í betri nýtingu og þar af leiðandi minni kostnaði við mannahald, tækjakost og ýmsan búnað og aðstöðu verktaka. Auk þessa væri öll áætlanagerð, fjárfestingar og þjálfun mannskaps verktaka mun markvissari ef um stórt útboð væri að ræða sem ætti einnig að skila sér í lægri einingarverðum.

Fyrir verkkaupann mundi stór útboðspakki kalla á langtímafjármögnun með meiri festu í áætlanagerð og hugsanlega meiri hagkvæmni. Kostnaður verkkaupa við undirbúningsrannsóknir, hönnun útboða og framkvæmdaeftirlit ætti að vera lægri við stórar einingar vegna betri nýtingar á mannskap og tækjum. Að mati Vegagerðarinnar má áætla lauslega að heildarsparnaður við útboð á stórum framkvæmdaeiningum sé á bilinu 5--10% og þó líklega nær lægri tölunni. Fyrir þau tvö verkefni sem lagt er til að verði fyrst í röðinni gæti sparnaður því numið 400--600 millj. kr. Það er því eftir miklu að sækjast að ná sem hagkvæmustum áföngum.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að hefja rannsóknir á jarðgöngum á Vestfjörðum og Austurlandi árið 2002 þegar framkvæmdir hefjast við göngin til Siglufjarðar og Reyðarfjarðar. Áætlun gerir ráð fyrir um 50 millj. á ári til rannsókna á árinu 2002, 2003 og 2004. Um er að ræða rannsóknir á göngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem eru í forgangshópi í tillögum Vegagerðarinnar og síðan ný göng milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar í stað Oddskarðsganga og hugmyndir um göng milli Héraðs og Vopnafjarðar. Þeir sem þekkja til aðstæðna á Vestfjörðum vita að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar ásamt með endurbótum á vegi fyrir Dynjandisheiði eru forsenda fyrir heilsársvegi milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar. Í dag er Vesturbyggð og Tálknafjörður án vegtengingar a.m.k. fimm mánuði á ári þegar vegir eru ófærir vegna snjóa svo sem nú er. Jarðgöng úr Dýrafirði munu því rjúfa vetrareinangrun þeirra byggða og auka til muna hagkvæmni útgerðar og fiskvinnslu í þorpunum og skapa nýja möguleika í ferðaþjónustu á svæðinu eins og á raunar við um alla þessa staði þar sem verið er að bæta samgöngur.

Ný göng til Neskaupstaðar með betri vegi milli byggðanna innan Fjarðabyggðar mun auðvitað breyta miklu fyrir Miðausturland og færa byggðina mikið saman frá því sem nú er. Því er gert ráð fyrir rannsóknum sem gætu leitt til framkvæmda þegar fram líða stundir.

Með nýjum vegi um Háreksstaðaleið, sem unnið er að, og með nýjum vegi um Hofsárdal verður mikil bót á vegtengingu til Vopnafjarðar. Engu að síður er talið mikilvægt að huga að göngum af Héraði til Vopnafjarðar og gerir áætlunin ráð fyrir að rannsóknir fari fram á gangastæði sem kæmi til skoðunar í framtíðinni.

Meginröksemdir fyrir gerð næstu jarðganga samkvæmt þessari þáltill. eru efling viðkomandi byggða með betri vegtengingum. Þau eiga að leysa varanlega ýmsa flöskuhálsa á vegakerfi landsins. Göngin eiga að stækka atvinnu- og þjónustusvæði mikilvægra byggðakjarna á landsbyggðinni, þ.e. á Miðausturlandi og Eyjafjarðarsvæðinu. Þau munu stytta vegalengdir verulega og í báðum tilfellum þarf að fjárfesta í vegabótum sem nýtist lítið ef jarðgöng koma síðar. Heildarniðurstaðan verður sterkari byggð utan höfuðborgarinnar og viðspyrna við fólksflutningum milli landshluta. Aðgerðir sem stuðla að jafnvægi í þróun byggðar eru öllum landsmönnum til hagsbóta.