Starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:05:46 (6500)

2000-04-12 15:05:46# 125. lþ. 99.3 fundur 517. mál: #A starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vona að engum detti í hug að mér þyki það góðar fréttir að svona skyldi hafa farið varðandi verkefni sem þetta fyrirtæki hafði og var frá Ríkisspítölunum. Ég er búin að segja nú þegar að ég tel að ekki sé öll nótt úti enn og geri mér vonir um að úr geti ræst. En það er þó þannig að ákveðnar reglur eru í okkar samfélagi sem ekki síst ríkið þarf að fara eftir. Ráðherrar þurfa að hafa svör við ýmsum spurningum hér, og það er gjarnan gagnrýnt af hv. þingmönnum ef ráðherrar eru ekki taldir fara að reglum. Ég bið því hv. þingmenn að hafa það a.m.k. með í umræðunni að við skulum reyna að fara að reglum. En við skulum hins vegar reyna að koma málum þannig fyrir að hlutir eins og þarna áttu sér stað gerist ekki og fyrir þessa tilteknu saumastofu skipta slík verkefni gríðarlegu miklu máli. Eins og mál horfa við á þessari stundu og það sem vitnað var til hér, þá var þar um bráðabirgðaútboð að ræða þar eð hið raunverulega útboð hefur ekki farið fram, þ.e. ef það fer fram.

Þetta er allt í athugun og ég treysti mér ekki til að hafa sterkari orð um þetta en þau að ég vonast til þess að úr rætist en tíminn einn getur leitt það í ljós.