Flokkun eiturefna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:16:19 (6504)

2000-04-12 15:16:19# 125. lþ. 99.6 fundur 496. mál: #A flokkun eiturefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er einlægur stuðningsmaður tóbaksvarna en tóbaksmerkingarnar falla ekki undir minn málaflokk. Hv. þm. spyr hvort ekki væri hægt að flokka þessa vöru sem eiturefni og ég hef svarað því til að ég sé ekki að það sé fært vegna lagaumhverfisins sem við búum við sem er m.a. byggt á tilskipun Evrópusambandsins.

Hins vegar er ágætt að koma því á framfæri að væri þessi vara flokkuð sem eiturefni, þ.e. ef svo væri, þá giltu um innflutning og sölu hennar mjög strangar reglur. Það þyrfti leyfi umhvrh. til innflutnings og sölu og einstaklingar þyrftu að framvísa sérstökum eiturleyfum hygðust þeir nota vöruna.

Það er alveg ljóst að almenningur í dag veit mjög mikið um skaðsemi reykinga og talsverður áróður er í gangi sem betur fer. Ef svo færi að alþjóðasamfélagið mundi breyta reglunum og þetta yrði flokkað sem eiturefni þá er mér svolítið til efs að það mundi hafa víðtæk áhrif. Fólk veit um skaðsemi reykinga en reykir samt. Auðvitað eru margir að hætta sem er mjög ánægjulegt þannig að ég er ekki viss um að það sé endilega málinu til framdráttar að breyta lögunum um eiturefni. Ég sé ekki alveg hvernig við getum gert það.

Ég vil ítreka að ég er mikill stuðningsmaður tóbaksvarna eins og ég veit að hv. þm. Þuríður Backman er. Við höfum t.d. tekið saman þátt í áróðri, í myndatökum. Það er auðvitað mjög brýnt að sem flestir taki þátt í tóbaksvörnum og ég tel að t.d. núv. hæstv. heilbrrh. hafi unnið talsvert þrekvirki á þeim vettvangi og tekið mun fastar á þeim málum en forverar hennar undanfarin ár.