Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:22:22 (6516)

2000-04-13 11:22:22# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi koma inn á þær spurningar sem hv. þm. kom inn á, þó ég geti ekki svarað nema kannski einni eða tveimur, og mun koma að öðrum síðar.

Fyrsta spurning hans laut að sendiráði í Vínarborg. Það hafði verið áætlað og í reynd ákveðið þegar við kæmum upp fastanefnd hjá ÖSE í Vínarborg að í framhaldinu breyttum við þeirri sendiskrifstofu í sendiráð af þeirri einföldu ástæðu að með því gætum við nýtt þessa aðstöðu mun betur. Við þurfum að sinna í vaxandi mæli ýmsum ríkjum Mið-Evrópu og Austur-Evrópu sem við höfum ekki getað sinnt með fullnægjandi hætti fram að þessu. Vínarborg liggur afar vel við og þess vegna er það á allan hátt hagkvæmt að nýta aðstöðuna í Vínarborg betur.

Þá vaknar sú spurning: Er ástæða til að breyta þessum áætlunum vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað í Austurríki? Við teljum svo ekki vera. Ég veit ekki til þess að neitt af þeim ríkjum, sem hafa gagnrýnt Austurríki sem mest, hafi uppi fyrirætlanir um það að leggja niður sendiráð eða draga úr sinni starfsemi þar. Mér sýnist hins vegar að sum þessara ríkja séu í nokkrum vandræðum með að standa við fyrri yfirlýsingar sínar um það hvernig eigi að koma fram gagnvart Austurríki.

Ég hef fordæmt flokk Haiders og allt það sem hann hefur sagt en ég vil hins vegar dæma Austurríkismenn á grundvelli þess hvað þeir gera, hvað þeir ætlast fyrir og gefa þeim tækifæri til að skýra það út. Við Íslendingar höfum ekki tekið jafnsterkt til orða og ýmsar aðrar þjóðir og það er rangt hjá hv. þm. að einhver sameiginleg yfirlýsing hafi verið gefin út um þessi mál á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna þegar hann var haldinn síðast.