Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 11:35:21 (6632)

2000-04-26 11:35:21# 125. lþ. 102.14 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[11:35]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. mun eflaust ekki rústa fjárhag íslenskra fyrirtækja, það held ég að sé alveg á hreinu, ef það stæði bara eitt sér. En það eru svo margir pinklarnir sem búið er að hlaða á blessaðan klárinn að hann er farinn að sligast eða gæti sligast. Hann er reyndar mjög sprettharður sem stendur.

Það þurfa menn að standa vörð um, að vera ekki alltaf stöðugt að hlaða pinklum á án þess að átta sig á því hvað búið er að lesta klárinn mikið sem dregur þó vagninn sem við öll sitjum á.

Ef ekki er um að ræða launagreiðslur þá kostar þetta frv. fyrirtækið í sjálfu sér ekkert nema skiptikostnaðinn sem felst í því að ráða nýjan starfsmann í staðinn fyrir þann sem er frá eða greiða öðru starfsfólki aukavinnu fyrir þann tíma. Kostnaðurinn er því ekkert svo yfirgripsmikill. Reyndar kostar það töluvert að skipta um starfsmann. Það kostar sennilega um fimm- til sexföld mánaðarlaun að skipta um einn starfsmann. Sérstaklega í þessu tilfelli er það mjög slæmt þar sem fyrirtækið veit ekki hvenær maðurinn sem er frá kemur aftur. Það getur orðið mjög skaðlegt. Og þegar þetta er skipað ofan frá er viðbúið að menn séu dálítið óbilgjarnir í þeim viðskiptum.

En hins vegar ef það er svo, eins og það er yfirleitt hjá fyrirtækjum, að þau líta til þess ef vandræði eru heima hjá starfsmönnunum og veita þá frí. Þá er ekki um að ræða neina óbilgirni á hvorn veginn sem er. Það er því hægt að lágmarka kostnað fyrirtækja með því.

Um Japan vil ég segja að í Japan veit ég ekki til að nein lög séu um hollustu fyrirtækja við starfsmenn sína eða öfugt. En þar er miklu minna flæði á fólki en hér á landi.