Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:07:03 (6643)

2000-04-26 12:07:03# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:07]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nefndin ræddi þetta atriði sem og mörg önnur í tengslum við þetta stóra mál. En það er ljóst að að meginhluta til er norska fyrirkomulagið einmitt fyrirmynd þess sem við erum að byggja á núna.

Stærsti munurinn á fyrirkomulaginu hér og í Noregi er kannski sá að þar er t.d. ,,Utmarkskommisjonen`` dómstóll en ekki stjórnsýsluaðili. Hér var ákveðið að fara þá leið að óbyggðanefnd verði stjórnsýsluaðili. Í Noregi verður úrlausnum ,,Utmarkskommisjonen`` skotið beint til hæstaréttar Noregs, ekki eins og er hér að leita fyrst til héraðsdómstóla og síðan Hæstaréttar.

Við ræddum þetta töluvert og mér skilst að í upphaflegu drögunum hafi verið lagt til að óbyggðanefnd yrði sérdómstóll. Skiptar skoðanir voru um það innan nefndarinnar og mörgum fannst í rauninni betra að þetta yrði sérdómstóll. En að fengnum tillögum réttarfarsnefndar var ákveðið að fara þessa leið því að það er tilhneiging í íslensku réttarkerfi að fækka sérdómstólum, fækka sérdómstólastigum. Má í rauninni segja að fyrir vikið verði miðstýringin því miður þeim mun meiri, ég geti tekið undir það með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni.