Svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 13:46:35 (6685)

2000-04-27 13:46:35# 125. lþ. 103.97 fundur 469#B svör við fyrirspurnum og viðvera ráðherra# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Mig langar til að nota tækifærið til þess að vekja athygli á því að sjö skýrslubeiðnir er að finna í skjölum Alþingis nú á 125. þingi. Þar af eiga hv. þm. Samfylkingarinnar fimm og þar af á ég tvær.

Þann 2. nóvember sl. voru samþykktar tvær beiðnir mínar um skýrslur, um eina frá heilbrrh. um ófjósemisaðgerðir sem gerðar voru samkvæmt lögum sem giltu á árunum 1938--1975, og hin er til umhvrh. um framkvæmd alþjóðasamninga um umhverfismál hér á landi.

Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort þessar skýrslur muni líta dagsins ljós á 125. þingi hins háa Alþingis. Ég vil líka taka fram í umræðunni að nú líður að lokum fyrsta þings míns sem þingmanns og ég er mjög hugsandi yfir vinnubrögðum sem þessum og ég er ekki viss um að þetta mundi líðast í venjulegum fyrirtækjum á Íslandi.