Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 14:13:44 (6695)

2000-04-27 14:13:44# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum hér var á sínum tíma kynnt af hálfu sjútvrh. og var að efni til, að því er varðar frestunarákvæði, nánast sams konar og frv. sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lögðum fram í byrjun mars sl. Það var um frestunarákvæði ásamt nokkrum öðrum lagfæringum sem við töldum eðlilegt að gera á lögum um stjórn fiskveiða, sérstaklega með tilliti til þess að ákveðin endurskoðun laganna væri að eiga sér stað og með tilliti til þess að þingflokkar frjálslyndra og vinstri grænna hafði lagt fram sérstaka þáltill. um stefnumótun eða grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar sem mundi óhjákvæmilega taka einhvern tíma. Þess vegna lögðum við fram þetta frv. í marsbyrjun, mig minnir að það hafi verið 8. mars, um að fresta kvótasetningu á smábátaflotann og síðan önnur ákvæði eins og róðrarlag þeirra sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og þurfa að uppfylla 24 klukkustunda sóknarákvæði ásamt því að taka á vanda þeirra sem hafa á undanförnum árum orðið að una því að vera leiguliðar þeirra stóru og öflugu í sjávarútvegi og verða að greiða þeim stórfé fyrir að fá að veiða fisk í sjó og einnig ákvæði um að víkja að vandamálum skipa og útgerðarmanna, sjómanna sem eru á skipum undir 20 rúmlestum og eru með minna aflamark en 15 þorskígildistonn. Allt þetta var í því frv. sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lagði fram ásamt mér í byrjun mars. Frv. sjútvrh. sem við ræðum nú og nál. meiri hluta sjútvn. ásamt brtt. er að hluta til eins og fyrri hluti frv. okkar sem við lögðum fram í marsbyrjun eins og áður sagði.

[14:15]

Ég vil að gefnu tilefni varðandi þessa umræðu sem nú fer fram vekja athygli á því að í gærkvöldi horfði ég á þátt í ríkissjónvarpinu þar sem formenn fjögurra þingflokka mættu til viðtals og rökræðu um hin ýmsu mál í þinginu. Þá sagði formaður þingflokks Samfylkingarinnar eitthvað á þá leið að þingflokkur Frjálslynda flokksins, sem hefði beinlínis verið kosinn á þing út á stefnumál sín í sjávarútvegsmálunum, hefði ekki lagt neitt málefnalegt til þessara mála og eingöngu komið fram með hugmyndir um enn eina nefndina. Ég vek sérstaka athygli á þessum ummælum sem mér finnast reyndar ómakleg og ekki í samræmi við raunveruleikann vegna þess að við frá Frjálslynda flokknum vorum ekki boðaðir í þennan umræðuþátt og vorum þar ekki til andsvara.

Ég vil hins vegar draga það fram að í þessum málaflokki, um stjórn fiskveiða, hefur Frjálslyndi flokkurinn lagt fram þó nokkrar tillögur. Við lögðum fram fyrstu tillögur okkar sl. haust, ef ég man rétt var það í október, og síðan lögðum við aftur fram í nóvember tvö frv. um að minnka þau vandamál sem eru í núverandi lögum um stjórn fiskveiða. Annað frv. gekk út á að takmarka að á frystitogaraflotann væru færðar frekari aflaheimildir en orðið hefur á undanförnum árum og koma í veg fyrir þá samþjöppun veiðiheimilda sem safnast hefur til frystitogaraflotans. Það hefði auðvitað þýtt að ef frystitogaraflotinn, að samþykktu slíku frv. hefði viljað bæta við sig aflaheimildum, þá hefði hann orðið að gera það innan útgerðarflokks síns. Við vorum sem sagt ekki að leggja til að frystitogaraflotinn mætti ekki bæta við sig heldur að hann yrði þá að kaupa innan útgerðarflokks síns en mætti ekki halda áfram að kaupa aflaheimildir úr öðrum útgerðarflokkum sem eru enn þá óskilgreindir þrátt fyrir þessa tillögu okkar. Síðan hefur komið fram í þáltill. okkar og vinstri grænna hvernig menn hygðust skipta upp slíkum útgerðarflota sem íslenski flotinn er. Ég sé það í nýlegu frv. Samfylkingarinnar að þeir hafa einmitt hallast að þeim sjónarmiðum að skynsamlegt sé að hafa einhverja skiptingu í útgerðarflokka. Þær tillögur sem við og vinstri grænir lögðum fram á sínum tíma eru ekki vitlausari en það að Samfylkingin hefur séð ástæðu til að taka hluta af þeim upp í málflutning sinn og er það auðvitað vel.

Ég vil líka taka fram að í byrjun janúar leitaði ég eftir því hvort hugsanlegt væri að stjórnarandstaðan í heild sinni gæti náð saman um það að leggja fram stefnumótun um hvernig við hygðumst sjá breytingar á lögum um stjórn fiskveiða til framtíðar og hvernig að því mætti standa. Niðurstaðan varð sú að við og vinstri grænir náðum saman um að leggja fram leiðarlýsingu um stefnumótun í sjávarútvegsmálum og hvernig sú vegferð liti út frá sjónarhóli okkar. Ég tel, og tala þá fyrir Frjálslynda flokkinn, að sú greinargerð sem fylgir með þeirri þáltill. um nýjan grundvöll fiskveiðistjórnar, sú greinargerð Frjálslynda flokksins sem fylgir þar með sé þannig uppsett og í það mörgum liðum og vel skilgreind að upp úr henni væri ekki mjög erfitt mál að semja lagatexta og við í Frjálslynda flokknum treystum okkur algerlega til þess. Við töldum hins vegar eins og málin höfðu þróast að rétt væri að reyna að leita sátta um það hvort hægt væri að fá víðtækara samráð um hvernig við gætum skipað þessum málum til framtíðar.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega tillögu Samfylkingarinnar sem hefur birst í frumvarpsformi um stefnumótun. Til þess gefst tækifæri síðar. Ég vil aðeins leggja áherslu á að sú þáltill. sem við lögðum til var góður vegvísir um það til hvaða atriða menn þurftu einmitt að taka tillit við mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu. Ég fagna því auðvitað að Samfylkingin hefur tekið upp hluta af þeim málflutningi sem við höfum sett fram. Þess vegna er mér algerlega óskiljanlegt að formaður þingflokks þeirra skuli halda því fram í beinni sjónvarpsútsendingu að Frjálslyndi flokkurinn hafi ekkert lagt til þessara mála, hafi ekki komið fram með neinar málefnalegar tillögur eða frv. um það hvernig mætti ná tökum á því mikla vandamáli sem ég held að allir þingmenn sem á annað borð hafa ekki ofurtrú á núverandi kvótakerfi sjái að er innbyggt í fiskveiðistjórnarkerfi okkar.

Því var síðast haldið fram úr þessum ræðustól í gær að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi tryggði líffræðilega viðkomu fiskstofna. Á sama tíma var verið að birta niðurstöður úr togara- og netaralli sem sýndu 20% samdrátt á milli ára.

Á sl. tveimur árum hefur lítið verið lagt eyrun við málflutningi skipstjórnarmanna um það að veiðar úr þorskstofninum væru frekar að dragast saman. Sérstaklega hefur þetta komið fram varðandi veiðar hjá togurum sem hafa þurft að hafa meira fyrir því að veiða aflann en var árin þar á undan þó að vissulega hafi aflabrögð verið þokkaleg hjá stærstu og öflugustu skipunum. Skipstjórnarmenn á íslenska flotanum þóttust sjá þessi merki fyrir tveimur árum að þorskveiðin væri að dragast saman og sögðu það í útvarpsfréttum. Meira að segja skipstjórinn á á Arnari HU, sem hefur, ef ég man rétt, sett flest aflametin á undanförnum árum, lýsti því að fiskurinn væri greinilega minnkandi og þyrfti að hafa meira fyrir því að veiða sérstaklega þorskinn en hafði verið árin þar á undan. Við þessum varnaðarorðum var lítið brugðist við á Hafrannsóknastofnun eins og jafnan áður. Hefur það verið sérstakt einkenni Hafrannsóknastofnunar að þurfa ævinlega að vera nánast tveimur árum á eftir tímanum varðandi það hvernig þorkstofninn þróast, bæði í uppsveiflu og niðursveiflu, og því miður virðist svo vera enn.

En því verður varla haldið fram og hv. þm. Sverrir Hermannsson leiddi það mjög skýrt fram í rökræðunni í gær að kvótakerfi okkar væri að byggja sérstaklega upp fiskstofnana. Það er ekki svo. Ef menn halda því fram ættu þeir bara að fara heim og lesa skýrslur Hafró og sjá hvaða tillögur eru þar fyrir næstu ár og ekki eru vísbendingarnar frá togara- og netarallinu sem sagt var frá í gær merki um sérstaklega stækkandi fiskstofna eða aukna fiskgengd á miðunum. Þó er þetta breytilegt eftir veiðarfærum og veiðar línubáta hafa verið mjög góðar.

Víkjum aftur að þeirri tillögu sem er til umræðu. Í málflutningi okkar í Frjálslynda flokknum höfum við bent á marga galla á þeirri fiskveiðistjórnun sem viðhöfð hefur verið á undanförnum árum. Við lögðum m.a. fram í nóvember sl. frv. um svokallaða tegundatilfærslu þar sem menn notuðu strandveiðifisktegundir kvótakerfisins eins og steinbít, grálúðu og sandkola til að framleiða karfa og grálúðu. Þetta hefur viðgengist í mörg ár og verið á þetta bent af skipstjórnarmönnum og því haldið fram að veiðar á þessum stofnum, karfa og skrápflúru, væru of miklar og væru hættulegar eins og þær hafa verið stundaðar miðað við viðkomu og viðgang þessara stofna. Þrátt fyrir það að við höfum lagt þessa tillögu okkar fram í nóvember, sem hefði gert það að verkum að a.m.k. ákveðinn ágalli í núverandi fiskveiðistjórnarlöggjöf hefði verið lagfærður, virðist formaður þingflokks Samfylkingarinnar ekki hafa veitt því athygli að slíkt frv. hafi verið lagt fram eða rætt. Ég verð að segja alveg eins og er að þau ummæli sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir viðhafði í beinni útsendingu sjónvarps í gærkvöldi komu mér á óvart og tel að þar hafi verið ómaklega vegið að þingmönnum Frjálslynda flokksins. Við höfum staðið vakt okkar nokkuð vel í því að koma fram með hugmyndir og lagfæringar á lögum um stjórn fiskveiða.

Við í stjórnarandstöðunni búum hins vegar öll við það að hér er mikill þingmeirihluti stjórnarþingmanna og það hefur ekkert komið fram hjá stjórnarliðum um að þeir séu mjög til viðtals um að gera einhverjar verulegar lagfæringar á núverandi kerfi um stjórn fiskveiða. Þess vegna var það sem við í þingflokki frjálslyndra ákváðum sl. haust að byrja á því að leggja fram svona stutt frumvörp sem komu beinlínis inn á verstu galla kerfisins eins og uppkaup frystitogaraflotans, á aflaheimildum bátaflotans, eyðingu bátaflotans, sem hefur verið kallaður hinn gleymdi floti, og nokkrir þingmenn í þessum sal hafa stundum talað um fjálglega og talað um að margt þyrfti fyrir þann flota að gera. Síðan lögðum við til breytingar á tegundatilfærslunni sem kæmi í veg fyrir að stórútgerðirnar héldu áfram að nota kvótakerfið til að kaupa upp kvóta strandveiðiflotans og nota þær fisktegundir til breytinga í karfa- og grálúðukvóta. Þess vegna er það líka sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum lagt fram frv. um það að fisktegundir eins og steinbítur og ufsi verði teknar út úr kvótakerfinu meðan á endurskoðuninni stendur og hinn gleymdi floti, strandveiðiflotinn og annar floti, væri þá jafnsettur krókaveiðibátunum að veiða þessar tegundir meðan á endurskoðunartímabilinu stæði og mönnum væri sem sagt aðeins hjálpað til að lifa af það endurskoðunartímabil sem fer í hönd.

Við höfum hins vegar ummæli hæstv. sjútvrh. úr þessum stól síðan í gær um það að þetta endurskoðunarár sé ekki bara eitt heldur verði þau sennilega tvö. Út frá því þurfum við kannski sérstaklega að ræða það frv. sem hér er til umræðu og velta því fyrir okkur hvort það dugir að vera með þær breytingar sem hér eru lagðar til til eins árs miðað við að við höfum heyrt það á sjútvrh. að hann gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum frá stjórnarflokkunum á lögunum um stjórn fiskveiða í grundvallaratriðum. Stjórnarandstaðan öll hefur hins vegar lagt fram hugmyndir um það að gera verulega breytingu. Bæði við og vinstri grænir höfum í þingsályktunum okkar um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar lagt fram hugmyndir í þá veru og að menn nálguðust aflaheimildirnar með því að nálgast þær með uppboðum á aflaheimildunum en það er í greinargerð okkar, Frjálslynda flokksins, og að flotanum væri skipt upp í sérstaka útgerðarflokka og að uppboðinu væri stýrt þannig að það væri ekki eingöngu sá floti sem öflugastur er og fjárhagslega sterkastur á hverjum tíma sem gæti náð til sín aflaheimildum í gegnum slíkt uppboð heldur yrði það að vera stýrt og eftir útgerðarflokkum, landsvæðum og tekið tillit til byggðasjónarmiða. Ég sé þegar ég skoða tillögur Samfylkingarinnar að þeir víkja m.a. að sumum þeirra atriða sem við settum fram í þingsályktun okkar.

[14:30]

Frv. sem við ræðum hér og brtt. við það tekur eingöngu til þess að fresta kvótasetningu á þorsk, ýsu og steinbít í smábátakerfinu, en brtt. hins vegar til þess að opna nýtt hugtak og gera það virkt í þessu kerfi smábátanna og kallast það hér krókaaflahlutdeild. Þeim sem gert er mögulegt að fara inn í það kerfi, fara þangað með þær aflaheimildir sem þeir hafa og fá þá kvóta jafnt í ufsa, ýsu og steinbít sem þorski og þurfa þá að leigja til sín aflaheimildir af öðrum tegundum ef þeir eru komnir yfir í þetta krókaaflahlutdeildarkerfi.

Ef menn fara þessa leið þá geta menn eftir það stækkað þessa báta sem við höfum kallað smábáta, krókaaflafiskibáta, sem hingað til hafa verið með takmörkunum miðað við 6 tonn, en samkvæmt brtt. sem meiri hlutinn flytur verður að henni samþykktri hægt að stækka bátana sem fara yfir í krókaaflahlutdeildina. Og ég get ekki séð að þar sé um neina takmörkun að ræða á stærð. Menn gætu þess vegna breytt þessum bátum í 60 tonna bát eða gert eitthvað annað.

Þarna finnst mér menn vera að stíga skref án þess að hafa vegferðina klára fyrir framan sig. Það er verið að taka ákveðna áhættu varðandi það hvernig þessi mál geta þróast. Við höfum vissulega bent á að eðlilegt væri að skilgreina strandveiðiflotann upp á nýtt en það er umræða sem ég held að menn eigi að taka og reyna að finna flöt á því hvað við viljum kalla strandveiðiflotann og hvernig við viljum útfæra veiðimynstur hans og aðgengi hans að aflaheimildum.

Ég hef stundum sagt að strandveiðiflotinn ætti að fá sem mest frjálsræði og mestan forgang enda gengist hann þá undir þá kvöð að hann hefði ekki heimild til þess að fara með heimildirnar úr byggðarlögunum og það yrði að tryggja þann rétt með einhvers konar ákvæðum um að þá væri ekki sjálfgefið að sá floti sem slíkar heimildir fengi og slíkt stýrikerfi fengi gæti farið og selt aflann burt frá byggðarlögunum eins og átt hefur sér stað í fiskveiðikerfinu almennt og í raun rifið grundvöllinn undan byggð sums staðar í landinu svo mjög að mörg byggðarlög standa nú mjög höllum fæti í atvinnulegu og tekjulegu tilliti. Það hefur orðið mikill tekjusamdráttur í mörgum sveitarfélögum sem áður voru mjög öflug í útgerð fiskiskipa. Þetta á m.a. við Ísafjarðarkaupstað og eru sennilega tveir þriðju af tæplega 30 þúsund þorskígildum Ísafjarðarkaupstaðar horfin, eða Ísafjarðarbæjar eins og hann heitir nú. Eftir standa af aflaheimildum sem voru á stærri fiskiskipum aðeins rétt rúmlega 10 þúsund þorskígildi í stóra aflamarkskerfinu í Ísafjarðarbæ sem nú tekur yfir Þingeyri, Flateyri, Ísafjörð og Suðureyri. Þetta er auðvitað geysileg breyting í einu sveitarfélagi og í byggðinni fyrir vestan.

Sama hefur auðvitað komið upp í öðrum byggðarlögum eins og Hrísey og stöðum á Austurlandi. Í Ólafsfirði eru gerð út skip sem eru undir merkjum útgerðar Þormóðs ramma -- Sæbergs, en þar eru aflaheimildir bundnar því fyrirtæki. Atvinnuástand hefur víða því breyst með söluheimild útgerðarmanna á óveiddum fiski í sjó. Ég held að það væri mikið gæfuspor ef menn kæmu í veg fyrir það framsal sem þar á sér stað, enda er engin þörf á því ef þær hugmyndir sem stjórnarandstaðan hefur verið að leggja fram hljóta hljómgrunn, a.m.k. vil ég skilja tillögu Samfylkingarinnar í þá veru að það megi taka á þessu vandamáli, en það er ekki að finna í þeirra tillögu. Þar sýnist mér að áfram megi braska eftir að menn hafa fengið þessar heimildir til sín fimm ár inn í framtíðina.

Það sem menn opna hér með stækkun fiskiskipanna í smábátakerfinu er vegvísir án neinnar markaðrar stefnu um hvað þessir bátar megi stækka mikið og hvort strandveiðikerfið eigi þá að vera fyrir báta frá 6 tonnum til 60 tonna eða eitthvað annað. Ég tel að þarna séu menn að stíga ákveðið skref sem sé ótímabært og að brtt. meiri hlutans við 3. gr. frv. sé hættuleg að þessu leyti. Ég mun ekki styðja þá breytingu.

Að öðru leyti held ég að við getum stutt þetta frv. eins og það er flutt því það er í mjög svipaða veru og frv. okkar hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Við höfum hins vegar ákveðið að leggja fram brtt. við frv. sem hér er til umræðu, taka inn þau ákvæði sem voru í okkar frv. og leggja þau til sem brtt. við það frv. sem hv. formaður sjútvn., Einar K. Guðfinnsson, mælti hér fyrir.

Þessar brtt. eru þrjár og ganga út á það í fyrsta lagi að heimilt verði að taka 24 tíma sóknarákvæðið í tólf tíma tímabilum þannig að ekki sé sjálfgefið að menn þurfi að stunda veiðar í 24 tíma. Við teljum að þarna sé um eðlilega lagfæringu að ræða og að það sama eigi að eiga við varðandi aðrar greinar í bráðabirgðaákvæðunum þar sem getið er um fjölda sóknardaga, sem eru ýmist 32 eða 40, að menn eigi rétt á að taka þá daga út með tólf tíma veiðiferðum ef þeir kjósa svo.

Sumir hafa haldið því fram að með þessari tillögu værum við að efla mjög sóknina í þessu kerfi. Ég held að svo sé ekki. Ef menn ætla að taka veiðiferðirnar í tólf tíma tímabilum þá þýðir það einfaldlega að menn sigla á einum sólarhring tvisvar sinnum oftar að og frá landinu og þar af leiðandi verður virkur veiðitími á miðunum minni. Ég held líka að þetta sé mjög eðlilegt ákvæði með tilliti til vinnutíma manna og þess að menn séu ekki að pína sig til þess að vera við fiskveiðar jafnvel í hátt í 20 klukkustundir samfellt, fyrir utan það að ákvæðið sem við erum að mæla með í brtt. okkar hlýtur að valda því að meiri líkur séu á því að aflinn sem að landi berst verði betri að gæðum. Nýlega var að koma skýrsla frá starfshópi á vegum sjútvrn., nefnd um meðferð sjávarafla, tillögur, greinargerð o.s.frv. um afla dagróðrabáta, sem víkur einmitt að því að gera þurfi átak til þess að bæta meðferð á afla dagróðrabátanna. Ég held að brtt. sem við leggjum hér til sé einmitt í þá veru að stuðla að því að gæði fisksins sem veiddur yrði á krókabátunum og stunda veiðar eftir dagakerfi, mundi aukast. Fyrir utan það nú að hin eðlilega sjósókn væri þá þannig að menn hefðu meira val, gætu valið róðralag og fiskilag og valið að nýta þessa daga sína öðruvísi.

Í annarri brtt. okkar við frv. leggjum við til að steinbítur og ufsi verði tekinn út úr kvótakerfinu. Ef menn lesa skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 1999/2000 finna menn ekki mörg rök þar fyrir því að kvótasetja skuli steinbítinn. Þar er ekkert sem segir að steinbíturinn sé í neinum hættumörkum. Ekkert kemur fram um það. Enda hefur það verið svo að þessi göfuga fisktegund, sem Vestfirðingar hafa oft kallað bjargræðið, hefur á undanförnum árum verið notuð til þess að framleiða aðrar fisktegundir, t.d. karfa og grálúðu, eins og ég gat um áður. Það hafa einkum verið stórútgerðir sem hafa nýtt sér þá breytingarmöguleika.

Um ufsann er það að segja að hann er viðurkenndur flökkufiskur í íslenskri lögsögu. Hann kemur stundum án þess að nokkur viti hvaðan og fer að veiðast þar sem menn eiga síst von. Og hann hverfur stundum þegar menn eiga alls ekki á von á því að hann hverfi. Enda er ufsinn sennilega sú fisktegund sem jafnaðarlega heldur sig við Ísland, sem hvað mestan hreyfanleika hefur og er talið að ufsinn geti synt með allt að tíu mílna hraða á klukkustund langtímum saman. Ég sjálfur hef a.m.k. fylgt fiskitorfum vestan frá Hala og suður á Látragrunn á rétt rúmum einum og hálfum sólarhring og er það nú allnokkur vegalengd.

Við teljum sem sagt að rökin fyrir því að hafa þessar tegundir í kvótakerfinu séu mjög léttvæg og að þess vegna væri eðlilegt að taka þær út og gefa öðrum hluta flotans frjálsræði við veiðar á þessum fisktegundum, t.d. þeim hluta flotans sem krókabátarnir eru og fá samkvæmt brtt. frjálsa veiði í ýsu, ufsa og steinbít. Þar væri þá a.m.k. komið eitthvað til móts við þann flota sem hefur litlar aflaheimildir og mönnum væri gert svolítið jafnara undir höfði við að lifa af þann endurskoðunartíma sem í hönd fer enda eru, eins og sjútvrh. sagði hér í gær, líkur fyrir að hann verði ekki eitt ár heldur jafnvel tvö. Þá kemur auðvitað upp spurningin hvort á næsta þingi þurfi einnig að flytja frestunarákvæði í þessu máli og fresta kvótasetningunni á smábátana enn um eitt ár. Þar komum við hins vegar að spurningu sem snýr að heimild Alþingis. Miðað við það hvernig hin svokallaða lögfræðingaráðgjafanefnd túlkaði málið fyrir sjútvrn., Alþingi og ríkisstjórn á sínum tíma í kjölfar Valdimarsdómsins svokallaða í desember 1998, þá taldi hún að ákvæði um frestun og úreldingu fengist ekki staðist. En hér er auðvitað verið að festa í sessi úreldinguna að ákveðnu marki.

[14:45]

Þriðja tillagan sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson flytjum í þessu máli, viðbótartillagan, er um það að sá bátafloti sem orðið hefur fyrir miklum niðurskurði aflaheimilda á undanförnum árum, hinn hefðbundni vertíðarfloti, fái sérstaka ívilnun á næsta fiskveiðiári og til þess verði tekin allt að 1,5% af ýsu- og þorskveiðiheimildum þannig að úthlutað verði dálítilli uppbót til þessara báta.

Það er að vísu gegn mörgum ströngum skilyrðum að þessi floti fengi úthlutun samkvæmt tillögu okkar. Í fyrsta lagi er hún miðuð við stærðartakmörkun skipa. Ekkert skip yfir 200 brúttórúmlestum fengi úthlutun samkvæmt þessari tillögu okkar. Í öðru lagi kveður tillagan á um að hafi skip meira en 80 þorskígildistonn í varanlegum kvóta þá fái menn heldur ekki úthlutun samkvæmt tillögu okkar. Í þriðja lagi er það skilyrði að viðkomandi skip hafi leigt til sín meira en 40 þorskígildistonn, hafi sem sagt raunverulega verið í útgerð með litlar aflahemildir og verið leiguliðar stórgreifanna að þessu leyti. Þeir verða að hafa leigt 40 þorskígildistonn og vera raunverulega í útgerð til að geta fengið tímabundna úthlutun með þessu undanþáguákvæði til næsta fiskveiðiárs á meðan á endurskoðun stendur.

Þetta teljum við réttlætismál gagnvart þeim hópi manna og þeim sjómönnum sem á þessum skipum starfa. Margir eru þetta sjómenn sem á undanförnum árum hafa misst pláss sín á stærri skipum eða að aflaheimildir skipa sem þeir voru áður á hafa verið sameinaðar á stærri hluta fiskiskipaflotans. Þar með hafa þeir misst lifibrauð sitt. Margir þeirra hafa starfað til sjós í 20--30 ár og jafnvel lengur, hafa í raun aldrei gert neitt annað en að stunda fiskveiðar og kunna ekki sérstaklega annað verk sem fellur þeim betur úr hendi. Þeir vilja fá að stunda fiskveiðar en standa frammi fyrir hinu lokaða kvótakerfi stórgreifanna þar sem aflaheimildir eru hvorki lágt verðlagðar né leigðar á neinum spottprís.

Nú síðast hafa aflaheimildir á þorski gegnum kvótaþing farið í 127 kr. á kílóið. Þá er svo komið auðvitað að útgerð kvótalítilla skipa er orðin nánast algerlega vonlaus. Jafnvel þó að menn séu með veiðarfæri sem taka til stærsta fisksins og jafnvel þó að menn velji úr aflanum, sem er í dag hin viðtekna venja á mörgum fiskiskipum sem hafa litlar aflaheimildir, þá ná menn samt sem áður ekki endum saman í því útgerðarmynstri að þurfa að leigja aflaheimildirnar á ofurverði og reyna síðan að stunda fiskveiðar sér og sínum til framfæris eða til að tryggja afkomu útgerðarinnar sem þeir eru í forsvari fyrir eða eiga.

Þess vegna leggjum við þessa tillögu fram og teljum að hér sé um ákveðið réttlætismál að ræða og eðlilegt að verða við því að útiloka ekki ákveðinn hluta manna í trausti þess að í endurskoðun laga um stjórn fiskveiða leynist sá vonarneisti að þetta kerfi verði mönnum aðgengilegt á ný, ekki bara þeim sem eru þar fyrir heldur einnig nýliðum þannig að kerfið opnist til framtíðar og þar muni ríkja jafnræði og eðlileg samkeppnisskilyrði milli manna.

Þetta er sú stefnumótun sem menn hafa viljað sjá. Ég tel að þrátt fyrir misjafna framsetningu stjórnarandstöðuflokkanna þá hafi þeir í raun allir lagt fram þessi meginsjónarmið, að í framtíðinni skuli kerfið opnast þannig að það verði kerfi þar sem menn geti komið inn í þessa atvinnugrein. Menn hafa kannski lagt til mismunandi aðferðir í því en sú umræða bíður betri tíma. Þetta held ég að séu samt hin gildu sjónarmið stjórnarandstöðunnar, að það verði að hugsa til þess að atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn geti tekið við nýju fólki. Hvaða atvinnugrein lifir af í þessu landi sem ekki býður velkomna þá sem hafa áhuga? Hvaða atvinnugrein lifir það af til framtíðar að vera svo lokuð að þar séu þeir einir fyrir sem þar voru á sínum tíma og byggðu þann rétt sinn á fiskveiðum áranna 1980--1983, sem eru svokölluð viðmiðunarár?

LÍÚ hefur nýlega haldið því fram að mikill hluti veiðiheimildanna hafi skipt um hendur á undanförnum árum og aðeins um 20% þeirra, ef ég man rétt, hvíli á grunni hinnar raunverulegu skiptingar gjafakvótans á árunum 1981--1983. Ég held því fram að þessi framsetning LÍÚ sé fölsun á sögunni. Hún byggist á því að þetta er hengt á svokallaða kennitölubreytingu og að þegar fyrirtæki hafi sameinast þá hafi aflaheimildirnar skipt um hendur. Það er einfaldlega þannig að fyrirtæki hafa verið að renna saman á undanförnum árum. Samt sem áður eru eigendurnir að stærstum hluta þeir sömu að mörgum sjávarútvegsfyrirtækjunum og hafa verið sl. 15 ár þó svo að skipt hafi jafnvel verið tvisvar til þrisvar um kennitölur á liðnum 15 árum. Það er því umdeilanlegt hvenær heimildirnar hafa raunverulega skipt varanlega um hendur. Ég held þess vegna að þessi framsetning LÍÚ um að 80% fiskveiðiheimilda hafi skipt um hendur sé röng eins og hún er matreidd og til þess eins gerð að slá ryki í augu manna varðandi það að gjafakvóti sem miðaður var við einhver viðmiðunarár eigi ekki lengur við rök að styðjast.

Menn geta auðvitað velt upp þeirri spurningu og rætt um hvort það hafi verið eðlilegt á sínum tíma að skipta kvóta eftir veiðireynslu. Ég held að þegar menn töldu í svartsýniskasti haustið 1983 að þorskstofninn væri kominn ,,að fótum fram`` og ætti lítið annað eftir en eyðast, þá hafi í raun ekki verið tiltæk önnur viðmiðun en veiðireynsla.

En hvað var veiðireynsla skipa? Var það ekki það sem áhöfnin á viðkomandi fiskiskipi afkastaði? Jú, það var svo. Það var meira að segja viðurkennt við framkvæmd laganna á fyrstu fiskveiðiárunum í þessu kvótakerfi því að áhafnir sumra skipa, sem fóru á milli skipa, fengu veiðireynsluna með sér. Þar af leiðandi var veiðireynslan auðvitað byggð á afköstum áhafnarinnar og þátttöku hennar í að veiða aflann. Þess vegna litu menn til þess að þegar meiri hluti áhafnar færi á milli skipa væri unnt að færa viðkomandi veiðireynslu yfir á það skip. Þar af leiðandi var veiðireynslan byggð á afköstum áhafnar og skipstjórnarmanna. Þessi regla var síðan fljótlega afnumin og aðeins fáir útgerðarmenn, skipstjórnarmenn og áhafnir nutu þessa. En hvort heldur er þá liggur samt fyrir að veiðireynslan og afköst manna á þessum tíma lögðu grunninn undir kvótakerfið. Að mínu viti þýðir það hins vegar ekki að á því verði byggt um alla framtíð. Í raun held ég að allar tillögur sem ég hef séð frá stjórnarandstöðunni um nýja og breytta skipan feli í sér að menn telji að slíkt geti ekki varað um alla tíð, enda held ég að alveg óumflýjanlegt sé að gera slíka breytingu.

Það væri hið mesta gæfuspor fyrir íslenska útgerð og íslenska þjóð ef nýliðun yrði opnuð inn í þessa grein og menn gætu enn á ný tekist á við að berjast til áhrifa í útgerð og auka tekjur fyrir íslenskt samfélag. Allar þær atvinnugreinar sem loka sig af í klúbbi þeirra sem þar eiga réttindi bera feigðina í sér. Ég held að það sé mikið ógæfuspor íslenskra útgerðarmanna að ætla að halda sig við það kerfi sem nú er við lýði. Ég held að það sé mikið ógæfuspor sem mun þar fyrir utan sennilega aldrei halda velli til frambúðar.

Í fjórða lagi er í síðustu brtt. einnig ákvæði um að taka til við að leysa úr vanda manna á fiskiskipum undir 20 brúttórúmlestum sem hafa minna en 15 þorskígildistonn. Þarna er ekki um mjög mörg skip að ræða en samt sem áður er vandi þeirra stór. Þarna eru t.d. þeir sem stundað hafa grásleppuveiðar á undanförnum árum og hafa minni kvóta í botnfisktegundum en 15 þorskígildistonn. Þeir tóku þegar í fyrra á sig mikinn tekjusamdrátt og ekki er útlitið björgulegt varðandi verðlagningu á grásleppuhrognum á þessu ári. Þess vegna lögðum við til að þessi skip, undir 20 brúttólestum með minni en 15 tonna þorskígildiskvóta, fengju úthlutun eins og þau hefðu á sér og hefðu veitt af sínum þorskígildum á síðasta fiskveiðiári og þyrftu ekki að hafa leigt til sín heimildir til að fá þessa sérstöku úthlutun, enda er þarna um að ræða skip og sjómenn og útgerðarmenn sem reynt hafa að lifa af þeim litlu heimildum sem þeir hafa haft á undanförnum árum samhliða því m.a. að stunda grásleppuveiðar eða stunda eingöngu veiðar yfir sumartímann í smábátakerfinu og í aflamarkskerfinu. Sumir eldri sjómenn völdu sér á sínum tíma að fara í stóra aflamarkskerfið þó að þeir væru á bátum undir sex eða tíu tonnum. Þeir hafa vissulega ekki riðið feitum hesti frá þessu kvótakerfi síðan né heldur hinn gleymdi vertíðarfloti sem svo er kallaður.

Fá skip geta sótt fisk í sjó með jafnlitlum kostnaði og hinn hefðbundni vertíðarbátur sem gerir út frá ströndinni á tiltölulega nærliggjandi fiskimið með litlum útgerðarkostnaði. Það á jafnt við um krókabátana og vertíðarbáta sem hafa svipað róðrarlag og krókabátarnir og stunda veiðar með svokölluðum kyrrstæðum veiðarfærum sem ekki þarf að eyða mikilli orku við að færa um sjóinn til að ná í fiskinn. Þetta er auðvitað sá floti sem hefur að stærstum hluta verið að leigja til sín aflaheimildir á undanförnum árum á því okurverði sem verið hefur vegna þess að nánast enginn annar floti en þessi hefur fjárhagslegan hag af því að leigja til sín aflaheimildir, því hann gerir út með tiltölulega litlum kostnaði.

Auðvitað hafa sumar stórútgerðir leigt til sín nokkra tugi tonna til viðbótar við aflaheimildir sínar, en það eru bara jaðarviðskipti sem skipta ekki sköpum í tekjuöflun þeirra yfir árið. Það breytir ekki því að réttur þeirra sem þurfa að búa við núverandi aflamarkskerfi hlýtur líka að vera einhver þegar kemur að því að endurskoða lögin og velta eftirfarandi spurningu upp: Á að gera mönnum kleift að lifa af endurskoðunartímabilið? Sú spurning vaknar eftir ummæli sjútvrh. í gær og ummæli hans í Dagblaðinu eftir Vatneyrardóm --- mig minnir að það hafi verið 10. apríl --- um að endurskoðunartímabilið yrði ekki eitt ár heldur tvö ár, að það kalli á að menn þurfi að hugleiða að endurnýja svona ákvæði eða breyta þeim ef til kæmi. Ég tel eðlilegt að þeim sem starfa í þessari atvinnugrein, hvort sem þeir hafa mikið eða lítið aflamark, hvort sem þeir starfa í krókakerfi með aflahámarki, krókakerfi með aflahámarki og dögum eða öðrum afbrigðum --- þau eru, held ég, fjögur afbrigðin sem hægt er að stunda veiðar eftir í smábátakerfinu --- eða almenna aflamarkskerfinu, sé gert nokkuð jafnt undir höfði með að eiga einhverja möguleika á að lifa af endurskoðunartímann sem í hönd fer.

[15:00]

Það er auðvitað alveg ljóst að 38 manna þingmeirihluti í þinginu ræður för ef svo vill vera. Ef menn vilja viðhalda mismunun inn í framtíðina og viðhalda mismunun á endurskoðunartímanum tekst þeim það auðvitað með því að hafna tillögum eins og við Árni Steinar Jóhannsson höfum lagt til um breytingar. Ég held hins vegar að það væri skynsamlegt að menn tækju málið aftur upp á milli 2. og 3. umr. í sjútvn. --- sérstaklega þar sem í hönd fara nefndardagar --- og ræddu þessi mál betur og hvort að baki einhverra þeirra hugmynda sem við höfum hér verið að setja fram liggi ekki nokkur sanngirnisrök og hvað menn treysta sér þá til að ganga langt til móts við þá sanngirni í þessum málum um leið og þeir fylgja eftir því frv. sem meiri hlutinn hefur lagt fram um að fresta ákvæðum varðandi smábátakerfið.

Þetta tel ég eðlilega málsmeðferð og mun síðar í umræðunni víkja nánar að þessum málum og því sé þá eðlilegt að ræða í því sambandi. Einnig þyrfti þá að taka til umræðu það sem við settum nú ekki inn í þessa brtt. okkar, þ.e. sólarlagsákvæðið um að núverandi lög um stjórn fiskveiða féllu úr gildi. Við vorum með slíkt ákvæði og miðuðum það við september 2001. Nú liggja hins vegar fyrir, eins og ég áður sagði, ummæli hæstv. sjútvrh. um að þessi dagsetning gæti alveg eins orðið árið 2002. Það er auðvitað alveg ljóst að slíkar dagsetningar fá ekki náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans miðað við þá yfirlýsingu sem sjútvrh. gaf hér í gær um að allt eins líklegt sé að við séum að tala um tvö ár en ekki eitt.

Ég vil svo enda mál mitt á því að vekja enn á ný athygli á því að Frjálslyndi flokkurinn hefur staðið sig, að viti okkar sjálfra, nokkuð vel í því að reyna að halda málum um sjávarútvegsmál til umræðu í hv. Alþingi. Við hófum að leggja fram tillögur í þá veru þegar á haustþinginu. Þess vegna finnast mér dálítið ómakleg þau ummæli að við höfum ekki reynt að leggja okkar af mörkum eða ekki staðið við það sem við sögðum í kosningabaráttu okkar að það skyldi verða aðalmál okkar að leggja fram málefnagrunn sem hægt væri að vinna út frá til þess að takast á við breytingar laga um stjórn fiskveiða.

Okkur er ekkert sérstakt að vanbúnaði að breyta greinargerð okkar Frjálslynda flokksins í lagafrv. Við töldum hins vegar í ljósi stöðunnar í þinginu og stöðunnar í þessum málum eins og þau voru, þ.e. í alls konar óvissu, að rétt væri að reyna að leita eftir víðtæku samstarfi um það hvort m.a. íslenskir útgerðarmenn væru ekki að öðlast skynsemi til þess og að gæfa þeirra lægi í því að bjóða fram þá sátt og að þeir afsöluðu sér sölu- og leiguréttinum gegn því að þeir héldu veiði- og nýtingarrétti. Þess vegna lögðum til í tillögu okkar um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar að m.a. Landssamband íslenskra útgerðarmanna, Samtök kvótalítilla útgerða, Samtök fiskvinnslustöðva án útgerða og Samtök fiskvinnslustöðva almennt, sveitarstjórnir, Samband ísl. sveitarfélaga og fiskvinnslufólk, kæmu að þessu máli og færu yfir umræðuna í þessum hópi sem mestra hagsmuna á að gæta í því að sátt náist og viðhlítandi framtíðarsýn í stjórn veiða á Íslandsmiðum og að kerfið horfi til þeirra átta að vera fiskverndunarkerfi og nýtingarkerfi en ekki eingöngu sölu- og braskskerfi með aflaheimildir eins og reyndin hefur orðið í þróun þess að stórum hluta á undanförnum árum.

Hér hefur verið flutt tillaga í nokkur ár, ég held tvisvar ef ekki þrisvar, af hv. þingmönnum Guðmundi Hallvarðssyni og Guðjóni Guðjónssyni um að afnema kvótabraskið. Sú tillaga hefur ekki fengið hljómgrunn. Ég held meira að segja að það hafi þurft að endurflytja hana í hvert sinn vegna þess að hún hafi ekki fengið afgreiðslu úr sjútvn. Ég held að að öllu samanlögðu sé orðið tímabært að takast á við það sem þjóðin segist hafna. 75% af þjóðinni segir að hún hafni kvótabraskskerfinu eins og það er upp sett.

Vafalaust hefur fólk auðvitað margar ástæður fyrir því að setja fram þessa skoðun. Hún virðist aðallega birtast í skoðanakönnunum, ekkert endilega í alþingiskosningum. Við sem höfum sett það fram sem aðalmál, eins og Frjálslyndi flokkurinn, að ná fram breytingum og lagfæringum á þessu kerfi og í raun lagt til afnám þess, gerum okkur auðvitað vonir um að sá hópur þjóðarinnar sem myndar þessi 70%--75% í hverri skoðanakönnuninni eftir aðra, taki virka afstöðu og hverfi frá stuðningi við þá flokka sem vilja viðhalda kerfinu óbreyttu.

Ég lít svo á að það sé einhver mesta meinsemd sem við gætum búið við til framtíðar litið ef kerfið festist í sessi eins og það er. Ég hef stundum orðað það á þann veg að við ættum tvær leiðir við stjórn fiskveiða. Við ættum þá leið að halda áfram með kerfið nánast eins og það er og að sú leið mundi leiða til þess innan 10--20 ára að við færum algjörlega öfugir og skakkir, skuldsettir og vitlausir, út úr kerfinu vegna þess að þá væri það búið að ganga sér til húðar og þjóðin orðin skuldsett. Þetta getur gerst hvenær sem er. Smáútgáfa þessa gerðist í raun og veru þegar rækjuveiðin hrundi úr 70 þús. tonnum í 20 þús. tonn og menn sáu þar ekki neinn rekstrargrundvöll lengur.

Hvar var veðsetningin sem menn tryggðu á bak við skip sín í óveiddri rækju eftir að slíkt hafði gerst? Hvað getur ekki gerst í íslensku lífríki varðandi stækkun eða veiðimöguleika fiskstofna? Hvað getur ekki gerst í markaðskerfinu sem getur orðið þess valdandi að íslenski sjávarútvegurinn verði ekki í neinni stöðu til að standa til framtíðar litið undir þeim merkjum sem hann er í dag?

Hafa menn hugleitt það að Norðmenn eru núna að ala lax fyrir 12 norskar krónur kílóið? Það kostar 12 kr. að framleiða norskt laxeldiskíló. Fyrir tveimur áratugum var laxveiðiframboð úr Norður-Atlantshafi aðeins um 17--18 þús. tonn. Hvað eru Norðmenn að gera í dag? Þeir eru að bjóða fram 400 þús. tonn af laxi og selja það allt. Ef framleiðslukostnaður þeirra á laxkílóinu er kominn niður í 12 kr. hvað mundi þá gerast ef Norðmenn settu kraft í þorskeldi og kæmu þorskeldisframleiðslunni þannig fram að hægt væri að framleiða þorskkílóið fyrir 10--12 kr.? Við hvað ætlar íslenskur sjávarútvegur þá að keppa í framtíðinni?

Eru menn nokkuð vissir um að þeir peningar og veðsetningar sem menn hafa lagt í íslenskan sjávarútveg standist framtíðarsamkeppni í heiminum? Ég er ansi hræddur um að menn þurfi virkilega að velta því fyrir sér hvort sú skuldsetning sem lent hefur á íslenskum sjávarútvegi í kvótabraskskerfinu hafi við nokkur skynsamleg rök að styðjast. Ég held að hún hafi það ekki og við séum algjörlega á kolvitlausri leið með þróun mála eins og hún hefur verið.

Það skyldi þó ekki vera eftir kannski fjögur til fimm ár að við stæðum frammi fyrir talsverðu framboði af eldisþorski sem væri kannski seldur í Bretlandi á 180--200 kr. kílóið. Ef það kostar okkur að meðaltali 60 kr. að veiða kílóið, bara að veiða það fyrir utan að vinna úr því, þá held ég að menn sjái hvar þeir geta lent. Sennilega kæmi þá upp sú staða að eingöngu hinn hagkvæmasti floti, strandveiðiflotinn með kyrrstæðu veiðarfærin og minnsta útgerðarkostnaðinn, stæðist slíka samkeppni.

Þetta held ég að menn ættu allt svolítið að hugleiða og líta til þess að eðlilegt sé að þróa íslenskan sjávarútveg út úr því vitlausa kerfi sem hann hefur verið að festa sig í undanfarinn einn og hálfan áratug.