Endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 15:48:55 (6709)

2000-04-27 15:48:55# 125. lþ. 103.94 fundur 467#B endurmat á verðmæti Landssímans og ríkisstuðningur# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Sagan á bak við matið á Landssímanum, þessu óskabarni þjóðarinnar, fer að verða nokkuð flókin. Það þarf engan að undra þegar hún er skoðuð að nokkurrar tortryggni gæti í garð hæstv. ríkisstjórnar vegna þessa. Það er gríðarlega mikilvægt að mat þetta sé framkvæmt af nákvæmni og sanngirni. Um það geta allir verið sammála, hver svo sem afstaða manna kann að vera gagnvart sölu á þessu ágæta fyrirtæki.

Ég vil leyfa mér að rifja þessa sögu lítillega upp, herra forseti. Fyrst er þar að telja nefnd númer eitt, matsnefnd sem falið var að meta verðmæti Pósts og síma á sínum tíma, en í henni sátu Guðjón Eyjólfsson, Hreinn Loftsson og Skarphéðinn Steinarsson. Í áliti samkeppnisráðs nr. 6 frá 1999 er m.a. talið að Landssíminn hafi notið allt að 10 milljarða kr. ríkisaðstoðar og farið fram á að fastafjármunir og skuldbindingar fyrirtækisins yrðu endurmetnar ásamt viðskiptavild þess. Ráðherrann skipar síðan 23. júlí 1999 sérstaka nefnd, nefnd tvö, til að fjalla um álit samkeppnisráðs sem er rétt að ítreka að hefur lögformlegt vald til að meta hvort samkeppnisreglur séu virtar í viðskiptalífinu. Nefnd tvö átti að skila tillögu um það hvernig bregðast ætti við tilmælum samkeppnisráðs og þá nefnd skipuðu Baldur Guðlaugsson, Árni Kolbeinsson og Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi.

Nefnd tvö lagði til að nýtt mat færi fram á eignum Póst- og símamálastofnunar sem Póstur og sími hf. yfirtók 1. janúar 1997. Þá skipar ráðherrann nefnd þrjú í nóvember 1999 og í henni eiga sæti Heimir Haraldsson, Hjörleifur Pálsson og Skarphéðinn Steinarsson.

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það meira en lítið skrýtið að hæstv. samgrh. skuli velja til setu í endurmatsnefndinni einstakling sem sat í fyrstu matsnefndinni sem bæði samkeppnisráð og nefnd tvö telja hafa framkvæmt rangt mat. Hann átti sem sagt að leggja hlutlaust mat á það hvort fyrsta mat hans og félaga hans í nefnd eitt hafi verið rétt eða ekki.

Í öðru lagi er seta ríkisendurskoðanda í slíkri ráðherraskipaðri nefnd gagnrýniverð. Hún útilokar að ríkisendurskoðandi geti framkvæmt hlutlausa úttekt á málefnum Landssímans verði eftir því óskað af hálfu Alþingis eða einstakra þingmanna. Seta í slíkum ráðherraskipuðum starfshópi samræmist vart eðli starfa hans sem ríkisendurskoðanda, enda er hann starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því.

Herra forseti. Þessi vinnubrögð eru ekki nógu góð og þau eiga ekki að viðgangast þegar þvílík verðmæti eru í húfi sem eignir og viðskiptavild Landssímans.