Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 17:55:31 (6736)

2000-04-27 17:55:31# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[17:55]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér mjög á óvart, virðulegi forseti, sem nýliða á þinginu ef hv. þm. Jóhann Ársælsson heldur að hlutirnir gangi þannig fyrir sig á hinu háa Alþingi að eitt stjórnmálaafl geti komið með fullmótaða tillögu að máli og fengið það samþykkt. Það held ég að sé alveg af og frá og barnaskapur að halda að slíkt gangi þannig fyrir sig. Þess vegna er það upplegg sem við höfum komið fram með, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, miklu fýsilegra til að ná þeim markmiðum sem við erum þó sammála um að við viljum ná. Um það snýst málið.

Það væri fáheyrt ef einn flokkur í viðkvæmu ágreiningsmáli --- en Samfylkingin leggur svo ríka áherslu á, virðulegi forseti, að allt sé mótað hjá þeim --- telur að hann geti skautað í gegnum þingið og fengið samþykktar, eins og áherslan er mjög lögð á, fullmótaðar tillögur í sjávarútvegsmálum.