Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 18:46:30 (6745)

2000-04-27 18:46:30# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér lítið frv. um að fresta ákvæðum laga um eitt ár. Þessi umræða hefur snúist upp í eins konar eldhúsdagsumræður um fiskveiðistjórnarkerfið og alveg sérstaklega eignarhald á kvóta. Deilan hefur snúist milli stjórnarandstöðuflokkanna um hver eigi mál með lægsta málsnúmeri og hver hafi fyrstur komið fram með tillögur til lausnar á þeim vanda.

Ég vil benda á að ég hef sjálfur flutt tillögu í tvígang og ég hygg að tillaga mín sem er nokkuð vel útfærð sé með lægsta númeri sem nú fyrirfinnst. (SJS: Þá vinnur þú.) Þá vinn ég sem sagt.

En ég er með spurningu til hv. þm. Hann sagði að uppboð á veiðiheimildum, þ.e. markaðsvæðing á árlegum veiðiheimildum, mundi ekki auka nýliðun. Þetta er einmitt það sem ég lagði til, að dreifa ætti kvóta á alla þjóðina og síðan yrðu allar árlegar veiðiheimildir markaðsvæddar. Nú er það svo að hagnaður best reknu fyrirtækjanna í greininni er um 10--30 kr. á kg þorskígildis sem þau mega veiða. Markaðsverðið aftur á móti á þessum sömu þorskígildiskílóum er í dag yfir 100 kr. á kg. Telur hv. þm. að Grandi t.d. gæti nokkurn tíma boðið meira en 20 kr. á kg nema hann færi að skila tapi og hvernig telur hv. þm. að hluthafar Granda mundu líta til þess?

Þá er önnur spurning. Hv. þm. talaði um að hætta ætti eiginlega framsali, ég skildi það þannig að hætta ætti að leyfa framsal. Er hann með því að þvinga menn til að gera út sama dallinn, alveg sama hvað hann er orðinn gamall og óhagkvæmur um aldur og ævi eða er hv. þm. að hvetja menn til að sameina enn frekar eða ætlar hann að banna framsal milli skipa hjá sama útgerðaraðila?