Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:15:53 (6764)

2000-04-27 20:15:53# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ég styð þetta frv. Það felur í sér ýmsar þarfar breytingar, sumar nokkuð umdeildar. Veigamesta breytingin sem ráðist er í er sú að með þessu frv. eru rýmkaðar heimildir sem lífeyrissjóðirnir hafa til fjárfestinga. Með frv. fá lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum allt að 50% af hreinni eign sjóðanna. Hún er ekki lítil þessi eign, um 500 milljarðar kr.

Hér er verið að hækka þau viðmiðunarmörk sem sjóðunum voru sett í lögunum og hafa gilt fram til þessa. Þess ber að geta að lífeyrissjóðirnir vildu ganga enn lengra en hér er gert ráð fyrir í frv. Þeir vildu að þessar heimildir yrðu rýmri en frv. gerir ráð fyrir. Í efh.- og viðskn. vildum við hins vegar fara varlegar í sakirnar. Í stað þess að hækka þetta þak verulega, eins og margir lífeyrissjóðir óskuðu eftir, þá vildum við fara varlega. Við vildum ekki gefa heimild til að flytja fjármagn út úr landinu í meiri mæli en þessu nemur.

Sú var tíðin að ég var í hópi þeirra sem höfðu efasemdir um að flytja fjármagn úr landi og ég hef það að sönnu enn. Ég vil helst nýta fjármagnið til uppbyggilegra þátta hér innan lands og sakna þess tíma þegar fjármagn lífeyrissjóðanna var veitt til uppbyggingar velferðarþjónustunnar, í húsnæðiskerfið og til annarra þarfra verka.

Þessi tími er liðinn. Við búum við stjórnvöld sem hugsa á annan veg, hafa markaðsvætt alla hluti og þar með þá þætti sem áður voru fjármagnaðir af lífeyrissjóðunum. Eftirspurn eftir fjármagni lífeyrissjóðanna frá opinberum aðilum er þannig ekki lengur fyrir hendi og þá þurfa þeir að koma þessum fjárfestingum sínum á fast. Því er mjög mikilvægt að skynsamlega sé haldið á málum og áhættudreifing sé sem ákjósanlegust og af sem mestu viti og fyrirhyggju. Lífeyrissjóðirnir hafa valið þann kost að fara með þetta fjármagn til útlanda. Það má segja að öruggir fjárfestingarkostir --- við erum að tala um fjárfestingar fyrir lífeyrisskuldbindingar langt inn í framtíðina --- séu hreinlega ekki fyrir hendi hér á landi þegar gerðar eru þessar kröfur. Þess vegna hafa sjóðirnir valið þann kost að fara út fyrir landsteinana með hluta af þessu fjármagni og dreifa áhættunni þar sem víðast. Ég er þessu ekki andvígur en hef ekki viljað stíga þau stóru skref sem margir innan lífeyrissjóðakerfisins hafa viljað stíga.

Eitt atriði vil ég þó nefna sem ekki er í þessu frv. Ég tel mjög mikilvægt að lífeyrissjóðirnir búi að öllu leyti við svipuð skilyrði og bankar og verðbréfafyrirtæki eða fjármálafyrirtæki sem ávaxta svokallaðan viðbótarsparnað. Þegar um er að ræða þau mörk sem lífeyrissjóðunum eru sett þá búa þeir við önnur skilyrði hvað þetta snertir en fjármálafyrirtæki. Mismunurinn er lífeyrissjóðunum í óhag að þessu leyti og ég tel að við þurfum að taka þessi mál til endurskoðunar í haust með það fyrir augum að jafna aðstöðuna hvað þetta snertir.

Eins og ég segi þá er hér að öðru leyti fyrst og fremst um ýmsar lagfæringar á lífeyriskerfinu að ræða. Gert er ráð fyrir að bæta upplýsingagjöf til þeirra sem sjóðinn eiga. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að starfsmenn ríkisins gerðu sér almennt ekki grein fyrir þeim mikla ávinningi sem hlotist hefði af breytingum sem gerðar hafa verið á lífeyriskerfi hins opinbera á liðnum árum. Ég held að almennt séu menn mjög meðvitaðir um hvað þarna hafi áunnist og að það vannst fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar, samtaka þess fólks sem á aðilid að þessum sjóðum.