Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:24:49 (6767)

2000-04-27 20:24:49# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:24]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var yndisleg ræða um álit stjórnarmanns í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á sínum eigin sjóðfélögum. Hann heldur að hann sé best til þess fallinn að ráðstafa fé þeirra. Hann segir að fólk sé almennt ekki vakið og sofið yfir verðbréfavísitölum af því að örfáir mæti á ársfund. Af hverju mæta örfáir á ársfund? Af því að menn hafa ekkert að segja þar og engu að ráða. Menn geta ekki kosið stjórn. Menn hafa ekkert um stjórn sjóðsins og ráðstöfun peninga sinna að segja, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er von að ég segi þetta aftur og aftur og að þetta sé gamalkunn ræða. Ég mun halda hana aftur og aftur vegna þess að ég skil það ekki að fólki sé gert skylt með lögum að greiða inn í ákveðinn lífeyrissjóð og hafi engin áhrif stjórnina sem ráðstafar þeim peningum sem eiga að standa undir ellilífeyri þeirra í framtíðinni.

Ég mun þannig halda þessa ræðu aftur og aftur og aftur, þangað til hinn almenni sjóðfélagi fær einhverju að ráða um hver stjórnar sjóðnum og hver ávaxtar og vakir yfir verðbréfavísitölunum.