Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:42:47 (6773)

2000-04-27 20:42:47# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hastarlegt að heyra það að ég sem stóð fyrir því 1980 að Lífeyrissjóður verslunarmanna tæki upp verðtryggingu fyrstur lífeyrissjóða vegna þess að iðgjöld sjóðsins brunnu á báli verðbólgunnar 1979 --- það hefði mátt sleppa öllum iðgjöldum til sjóðsins á því ári --- þurfi að heyra það að sjóðstjórnirnar hafi gert eitthvað sérstakt. Þær voru gjörsamlega steinsofandi. Ég sem tryggingafræðingur vissi um stöðu sjóðanna og benti á það aftur og aftur og var talinn vera úrtölumaður og svartsýnismaður. Nú er staða sjóðanna mjög góð eftir að verðtryggingin var tekin upp.

En það eru aðrir gallar í núverandi kerfi sem ég hef bent á en hv. þm. hefur sennilega ekki hlustað á. Það er að það að sjóðirnir veita ekki kynja- og aldursbundin réttindi mun leiða til þess að sjóðir sem eru með mikið af gömlu fólki munu standa illa og þurfa að skerða réttindi sín á meðan sjóðir sem eru með ungu fólki geta stöðugt bætt réttindi sín. Þetta kemur í ljós eftir nokkur ár og ég bendi á það. Þetta er ég búinn að benda á aftur og aftur þannig að ég skil ekki ummæli hv. þm. að ég sé að tala eins og ég hafi enga hugmynd um þetta.

Svo vil ég að lokum spyrja einnar spurningar: Hver á Lífeyrissjóð sjómanna? Eru það sjómenn eða einhverjir aðrir?