Húsgöngu- og fjarsölusamningar

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:11:05 (6785)

2000-04-27 21:11:05# 125. lþ. 103.11 fundur 421. mál: #A húsgöngu- og fjarsölusamningar# (heildarlög) frv. 46/2000, MF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:11]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. nál. efh.- og viðskn. og formanni efh.- og viðskn. stöndum við í minni hluta í efh.- og viðskn. að því nál. og þeim breytingum sem nefndin leggur til á sérstöku þskj.

Ég vil þó, virðulegi forseti, nefna að frv. er samið í viðskrn. í þeim tilgangi að lögleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997. Sameiginlega EES-nefndin tók þá ákvörðun 6. mars 1998 að fella inn í EES-samninginn tilskipun þessa frá 20. maí 1997, um neytendavernd, að því er varðar fjarsölusamninga. Tilgangurinn með tilskipuninni er að samræma löggjöf aðildarríkjanna að því er varðar vernd neytenda við gerð samninga milli þeirra og seljenda vöru og þjónustu í fjarsölu. Með fjarsölu er átt við að seljandi vöru eða þjónustu noti fjarskiptatækni, t.d. síma, sjónvarp, bréfasíma og tölvu, við sölu og gerð samnings um kaup á vöru eða þjónustu.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Þær verða skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild 103. gr. EES-samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegrar skilgreiningar heima fyrir. Aðildarríkin hafa sex mánaða frest frá ákvarðanatöku sameiginlegu nefndarinnar til að aflétta fyrirvaranum. Fyrirvörum samkvæmt 103. gr. EES-samningsins hefur aðeins verið beitt hér á landi þegar ljóst þykir að ákvörðun EES-nefndarinnar kalli á lagabreytingar, eða alls 38 sinnum frá því EES-samningurinn tók gildi.

Virðulegi forseti. Í utanrmn. höfum við verið að fjalla um þáltill. þar sem einmitt þessa máls, frv. til laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga, er getið. En samkvæmt grg. með þáltill. sem er til umfjöllunar í utanrmn. hefur safnast fyrir nokkur fjöldi ákvarðana sameiginlegu EES-nefndanna sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara við og er hluti þeirra ákvarðana orðinn eldri en sex mánaða. Í athugasemd með þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur annars vegar í för með sér að viðeigandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar ganga hvorki í gildi að því er Ísland né hin aðildarríkin varðar og hins vegar að Ísland gæti staðið frammi fyrir því að önnur aðildarríki færu fram á að frestað yrði framkvæmd einstakra viðauka samningsins eða hluta þeirra gagnvart Íslandi, sbr. 102. gr. samningsins. Þótt aðdragandi að slíkri frestun sé allnokkur og þar með takmarkaðar líkur á því að mál gangi svo langt verður ekki fram hjá því litið að áhrif frestunar gætu orðið mjög alvarleg.``

Vegna þess að þó nokkur mál hafa safnast upp er gripið til þess ráðs að fara í það form að taka öll þessi mál og safna þeim saman í eina þáltill. Þarna er um tiltölulega stór mál að ræða og mörg hver merkileg og mikilvæg. Þetta mál er hins vegar eitt af þeim sem þarf að lögleiða þar sem við höfum ekki staðið okkur sem skyldi við að ganga frá því á tilskildum tíma. Þó að það sé innifalið í þessari þáltill. sem utanrmn. er að fjalla um hljótum við að fagna því að frv. verði afgreitt á undan þáltill. Það er þá einu málinu færra í því syndaregistri sem kom til okkar frá utanrrn. Í athugasemd með þáltill. segir:

,,Tilgangurinn með tilskipuninni er að samræma löggjöf aðildarríkjanna að því er varðar vernd neytenda við gerð samninga milli þeirra og seljenda vöru og þjónustu í fjarsölu. Með fjarsölu er átt við að seljandi vöru eða þjónustu noti fjarskiptatækni, t.d. síma, sjónvarp, bréfasíma og tölvu, við sölu og gerð samnings um kaup á vöru eða þjónustu.

Tilskipunin kallar á breytingu á lögum nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu, og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp þar að lútandi.``

Og merkilegt nokk, virðulegi forseti, Alþingi er u.þ.b. að afgreiða málið og í samkomulagi.