Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 21:32:52 (6790)

2000-04-27 21:32:52# 125. lþ. 103.44 fundur 489. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (póstþjónusta) frv. 48/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[21:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Til umræðu er frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Þetta er frv. sem ekki er mikið að vöxtum, tvær greinar. Önnur er um hvenær lögin skuli öðlast gildi og hin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt samkvæmt sérstökum samningi að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins.``

Undir nál. sem fylgir þessu frv. skrifa ég nafn mitt en með fyrirvara þó og ætla ég að gera grein fyrir þeim fyrirvara mínum.

Frv. er sett fram til að auðvelda Póstinum að gera samninga við sparisjóði og bankaútibú á landsbyggðinni um að taka að sér rekstur í tengslum við póstþjónustuna. Þetta er til komið af þeim sökum að Pósturinn hefur verið að hagræða, eins og kallað er. Sú hagræðing felst ekki síst í því að fækka útibúum á landsbyggðinni. Þetta hefur komið landsbyggðinni mjög í koll enda skiptir það fámenn byggðarlög miklu máli að þar sé fyrir hendi sem fjölþættust þjónusta. Fjölþætt þjónusta þýðir fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir þá sem þar búa.

Nú er verið að fækka þessum tækifærum, m.a. með fækkun póstútibúa. Þetta er fylgifiskur svokallaðrar einkavæðingar sem þýðir í reynd að arðsemissjónarmið og köld peningahyggja er látin ráða för. Einungis er spurt um hvað borgar sig á hverjum stað. Það er ekki hirt um byggðarlögin eða hvaða áhrif þetta hefur á þau. Ég er þessari stefnu mjög andvígur. Ég tel heppilegast og æskilegt að Pósturinn viðhaldi póstþjónustunni um landið allt með útibúum og þar sé ekki þröngsýn peningahyggjan látin ráða för. Ég er þeirrar skoðunar. Ég held það skipti mjög miklu máli fyrir fámenn byggðarlög.

En hvers vegna styð ég þá þetta frv., þótt með fyrirvara sé? Hvers vegna er ég reiðubúinn að setja nafn mitt á nál. með fyrirvara, svo ég endurtaki það? Það er vegna þess að Póstinum er þegar heimilt að gera samninga af þessu tagi við önnur fyrirtæki, við verslanir t.d. og önnur fyrirtæki. Það sem vantar hins vegar upp á að hann geti gengið frá slíkum samningum við sparisjóði eða banka er þessi breyting á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Ég verð að segja að ef og þegar ákvörðun hefur verið tekin um að leggja útibú niður og valið stendur á milli verslunar eða annars reksturs og síðan banka eða sparisjóða þá finnst mér rangt að lagalegar sperrur komi í veg fyrir að bankaútibúið eða sparisjóðurinn sé valinn fremur en önnur fyrirtæki ef póstþjónustan telur það heppilegra. Mér finnst óeðlilegt að mismuna þessum stofnunum að þessu leyti. Inn í þetta kemur náttúrlega að innan bankanna og póstþjónustunnar fer fram skyld starfsemi. Það er ánægjuefni að samtök póstmanna og bankamanna, Samband ísl. bankamanna, hafa rætt þessi mál og komist að ágætu samkomulagi um samstarf ef til þess kemur.

En grundvallarafstaða mín er engu að síður þessi: Ég er því mjög andvígur að leggja niður útibú póstþjónustunnar á landsbyggðinni. Ég tel að það komi landsbyggðinni í koll, veiki byggðarlögin og fámenn sveitarfélög en þjóni hugsanlega einhverjum þröngum peningasjónarmiðum hér syðra.

Hins vegar orkar margt tvímælis þegar menn tala um hagræðingu. Þannig er það að gerast innan Póstsins og ýmissa annarra stofnana sem kveðast vera að hagræða að þar blómstra og dafna og blása út hagræðingardeildirnar með öllum sérfræðingunum sem þar koma við sögu en á sama tíma er skorið niður við gólflistann, þar er fækkað. Þeir sem síst skyldi verða fyrir barðinu á niðurskurðarhnífnum. Það eru hin fámennu byggðarlög. Það er svolítið grátlegt að hugsa til þess að sama ríkisstjórn og sömu aðilar og tala hér fjálglega um byggðastefnu og nauðsyn þess að efla byggðirnar, treysta þær, eru jafnframt með hinni hendinni að grafa undan þessum sömu byggðum og veikja þær, t.d. með því að veikja póstþjónustuna.

Ég er andvígur þeirri stefnu sem hér er fylgt en ég hef gert grein fyrir því hvers vegna ég styð þetta frv. og hvers vegna ég hef á því strangan fyrirvara.