Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:15:20 (6832)

2000-04-28 16:15:20# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það svo af því sem hér hefur komið fram og í því frv. sem hér er lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar með fullum stuðningi Sjálfstfl., að sjálfsögðu, að landsfundarsamþykktin um þetta hafi bara hreinlega verið röng og sjálfstæðismenn hafi séð að sér í því.

Hér er ekkert endilega um að ræða frjáls skoðanaskipti. Þau tíðkast náttúrlega í öllum flokkum. En þetta er svo nýleg samþykkt að það vekur auðvitað athygli þegar sveigt er af þessari leið og er í rauninni ekkert nema gott um það að segja ef framsóknarmönnum og hæstv. félmrh. hefur tekist að koma vitinu fyrir sjálfstæðismenn. Það er bara hið besta mál.

Hins vegar hrökk ég svolítið við það sem hv. þm. sagði í lok ræðu sinnar, þ.e. að framtíðarsýnin væri tólf mánaða fæðingarorlof. Ég er hjartanlega sammála því. En það kom líka fram að framtíðarsýnin væri sú að það væri fullt val foreldra hvernig þeir mundu taka það, þ.e. hvort annar aðilinn tæki það allt saman eða hvort því væri skipt eftir lögum. Þá erum við komin að því sem Heimdallarmenn eru að tala um. Þeir vilja hafa það svoleiðis, en ég efast um að það sé rétt leið til jafnréttis. Æðioft hefur verið talað um það úr þessum ágæta ræðustól að þetta atriði sé það sem nær kannski mest í jafnréttisátt, þ.e. að það muni ekki mismuna og konum verði ekki mismunað við ráðningu í störf vegna þess að þær eru konur og eiga kannski eftir að fara í barneignarfrí eftir smátíma, eins og hv. Blöndal --- hv. þm. Pétur Blöndal ræddi um áðan --- ekki Halldór Blöndal sem hér gekk hjá heldur Pétur Blöndal.

Ég hrökk því svolítið við seinni hluta annars ágæts andsvars hv. þm. vegna þess að ég hélt að þetta væri allt saman í takt við það sem við erum að tala um hér. En þetta er svolítið á skjön og meira í átt við það sem Heimdallur hefur verið að fjalla um.