Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:58:42 (6837)

2000-04-28 16:58:42# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:58]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að með brtt. hv. iðnn. er komið til móts við m.a. sjónarmið hv. heilbrn.

Tengslin við heilbrigðisstéttir eru í rauninni afskaplega skýr samkvæmt frv. Það er í fyrsta lagi með sérstöku námskeiði á námstíma áður en tannsmiðir fá full starfsréttindi. Jafnframt er það ákvæði að viðskiptavinir skuli leggja fram læknisvottorð --- ég undirstrika læknisvottorð. Jafnframt eru náin tengsl þar sem kveðið er á um samstarf í ákveðnum tilvikum tannsmiða við tannlækna og síðan eftirlitsþáttur landlæknis, þ.e. með sóttvarnaþættinum og þeim þáttum sem snerta samstarfið við tannlækna. En rétt er að leggja áherslu á og ítreka að meginþorrinn af starfi tannsmiða er iðnaður og þess vegna kemst hv. iðnn. að því að hér sé um iðnaðarmál að ræða og sjálfstætt starfandi iðnstétt.

Hvað varðar spurninguna um vottorð frá tannlækni eða öðrum læknum þá kom m.a. fram í máli tryggingatannlæknis að að öllu jöfnu gerist það til allrar hamingju mjög sjaldan að tannlæknar sjái krabbamein í munnholi og nefndi jafnvel dæmi um einu sinni á starfsævi í sumum tilvikum. Með öðrum orðum, að í daglegu starfi sínu eru tannlæknar ekki mjög þjálfaðir í að greina einkenni krabbameins ekki fremur en t.d. almennir læknar. Þá er líka rétt að vekja athygli á því að með því að stéttin sé sjálfstæð koma viðskiptavinir fyrst til tannsmiða og því er mikilvægt fyrir þá að geta haft vottorð og vísað viðskiptavinum sínum þá til tannlækna ef minnsti grunur kviknar.