Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 15:05:14 (6906)

2000-05-04 15:05:14# 125. lþ. 106.8 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu seinni umræða till. til þál. um flugmálaáætlun árið 2000--2003 og nál. sem samgn. hefur unnið og skilað hér.

Ég styð nál. eins og það er þarna. Ég tek undir þau orð sem hv. þm. hafa haft um það og þær áherslur sem þar eru dregnar fram um aðbúnað og aðstöðu á flugvöllum. Samkvæmt lögum eru flugvellir flokkaðir í I.--VI. flokk eftir því hvers konar umferð þar er gert ráð fyrir að fari fram og hvaða kröfur eru gerðar um aðbúnað og aðstöðu. Hvergi í þessum flokkum er fjallað um að þar skuli vera til afgreiðslu eldsneyti sem er alveg furðulegt svo mikilvægt sem það er fyrir þjónustumöguleika og þjónustustig flugvallanna og öryggi þeirra.

Þetta mál var rætt ítarlega í nefndinni og flugmálastjóri kom og gerði mjög ítarlega grein fyrir stöðu þess. Þar kom m.a. fram að það er Flugmálastjórn sem semur við olíufélögin um þessa afgreiðslu. Í umræðum í nefndinni var lögð áhersla á, eins og er líka vikið að í nál., að samningarnir yrðu gefnir upp og kannað hvernig væri hægt að endursemja og jafnvel bjóða aftur út eldsneytisafgreiðslu á flugvöllum vítt og breitt um landið. Málið yrði endurskoðað í heild sinni, þar á meðal líka að fara ofan í þær ástæður sem eru fyrir verðmismun sem er á eldsneyti til flugvéla á hinum ýmsu stöðum og freista þess að koma þar á samræmingu þannig að fyllsta jafnræðis sé gætt.

Ég tel að þetta sé afar mikilvægt og það sem kemur fram í nál. vísi veginn um þær kröfur sem nefndin vill að unnið verði að fyrir næsta vetur.

Það er líka annað mál sem kom upp í umræðunni um flugvellina sem heyrir að vísu meira undir vegamál en lýtur að notkun og öryggi flugvallanna sjálfra. Mikil breyting hefur orðið á áætlunarflugi og sem dæmi má nefna að á árinu 1989--1995 hefur lagst niður áætlunarflug á Rif, Grundarfjörð, Stykkishólm, Reykhóla, Suðureyri, Blönduós, Ólafsfjörð, Bakkafjörð, Breiðdalsvík og Fagurhólsmýri og eftir 1995 hefur lagst niður áætlunarflug á Holt og Hólmavík, Sigufjörður er í óvissu, Húsavík, Kópasker, Raufarhöfn, Borgarfjörð eystri og Norðfjörð.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að samtímis og þessir flugvellir fara úr tölu áætlunarflugvalla, fara úr þeirri stöðu sem áætlunarflugvellir hafa í samgöngukerfi landsins falla vegirnir jafnframt að flugvöllunum úr tölu samgönguæða landsins og verða forsjárlausir vegir, verða eins konar styrkvegir, og njóta þess vegna ekki þeirrar stöðu sem þeir höfðu áður í samgöngukerfi landsmanna. Viðhald og eftirlit með þeim er þá í ákveðinni óvissu. Þetta var eitt af því sem var líka rætt í nefndinni og líka í tengslum við vegamálin, vegalögin, og einmitt þar lögð áhersla á réttarstöðu vega sem falla þannig úr sem samgönguæðar landsins, en eru engu að síður afar mikilvægir, bæði fyrir öryggi og þá líka samgöngur þó það sé ekki í formi áætlunarflugs. Þá er mikilvægt að vegirnir að þessum flugvöllum séu í góðu lagi og réttarstaða þeirra sé ekki í óvissu. Ég vek athygli á þessu. Einnig var lögð áhersla það í nefndinni að þetta ætti að komast á hreint.

Herra forseti. Varðandi flugmálin almennt tel ég að skipulagt áætlunarflug um landið eigi að vera hluti af heildarskipulagi almenningssamgangna en ekki að verða þannig að við stöndum frammi fyrir tilfallandi breytingum í almenningssamgöngum eins og niðurfelling á flugi til Gjögurs, Siglufjarðar eða hverra annarra staða sem lenda í uppnámi vegna þess fyrirkomulags sem við búum við.

Það ætti að vera heildarskipulag fyrir almenningssamgöngur í landinu, þar á meðal flugsamgöngur, sem ættu að vera hluti af því heildarskipulegi og eftir því yrði unnið og leitað þeirra leita sem þörf er á á hverjum tíma til að þær samgöngur séu öruggar og tryggar og ekki verið að láta þær verða því óöryggi undirorpnar að það geti verið lagt niður með skömmum fyrirvara eins og nú er.

Ég legg áherslu á, herra forseti, að flugsamgöngur eru eins og aðrar samgöngur hluti af samgöngu- og öryggiskerfi þjóðarinnar og ber að skipuleggja þannig að þær séu hluti af því heildarskipulagi og öryggi allra landsmanna sé þannig tryggt eins og kostur er.