Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 15:12:57 (6907)

2000-05-04 15:12:57# 125. lþ. 106.8 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum að ræða till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 2000--2003. Varðandi fjárframlög til flugmálaáætlunar á þessum tíma er eðlilegt að Reykjavíkurflugvöllur fái allt að helmingsframlag af áætluninni. Við vitum það öll sem ferðumst með flugi innan lands að löngu var orðið tímabært að fara í þessar stóru og miklu framkvæmdir og endurnýjun á vellinum eins og hann var orðinn. Hann hefur setið lengi á hakanum og þar eru flugbrautirnar það sem mestur kostnaður er við.

En varðandi nál. hv. samgn. vil ég þakka fyrir niðurstöðu nefndarinnar og taka hjartanlega undir þær ábendingar og tillögur sem koma þar fram. Það er nefnilega þannig að aðbúnaður, eldsneytisbúnaður vallanna, kostnaður við tanka og dælur og annað sem snýr að eldsneytisbirgðum og afgreiðslu eldsneytis við vellina er ekki inni í flugmálaáætlun. Það sem meira er, ekki eru neinar reglur, engar lágmarkskröfur til staðar sem olíufélögin þurfa að uppfylla þegar þau þjóna þeim völlum sem þeim hefur verið úthlutað. Olíufélögin hafa skipt völlunum á milli sín.

[15:15]

Egilsstaðaflugvöllur sem hér er sérstaklega nefndur er einn af þremur flugvöllum landsins í flokki I og er þar af leiðandi varaflugvöllur fyrir þotuumferð. Við þennan völl eru eldsneytistankarnir óviðunandi. Einungis hefur verið framfylgt nauðsynlegum öryggisráðstöfunum varðandi mengun frá tönkunum en endurbygging og önnur þjónusta eins og eldsneytisdælur hafa ekki fylgt kröfum tímans. Sem betur fer á að bæta dælurnar og nú er von á stærri og öflugri dælum við völlinn. Þetta er nokkuð sem ég tek undir að þurfi að vera hluti af rekstri flugvallanna.

Þessir þættir þurfa að vera í lagi. Ég hvet til að samningi við olíufélögin verði sagt upp og þá liggi fyrir lágmarkskröfur um eldsneytistanka og afgreiðslu. Við þá endurskoðun þarf jafnframt að krefjast jafnaðarverðs á eldsneyti um landið allt. Það er óviðunandi fyrir þá sem eru að reyna að koma upp flugsamgöngum, áætlunarflugi, frá öðrum völlum en á Reykjavíkursvæðinu, ég nefni Akureyri og Egilsstaði, að búa við að verð á eldsneyti sé mun hærra á þessum stöðum en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og ég sagði áðan hafa olíufélögin skipt með sér þjónustunni. Olíufélagið Skeljungur hefur um langt árabil annast eldsneytissölu á Egilsstaðaflugvelli. Olíufélagið á þar alla aðstöðu til að geyma og afgreiða flugvélaeldsneytið. Um nokkurn tíma eða alveg frá því nýr flugvöllur var tekinn í notkun hefur staðið til að endurnýja aðstöðuna en því miður þá fóru þær áætlanir út um þúfur þegar ekki varð úr því að stórar þotur eða þotueldsneyti væri afgreitt frá flugvellinum eins og menn trúðu í upphafi. Þetta verður vítahringur, því lélegri sem afgreiðslan er og því hærra sem bensínverðið er, því ólíklegra er að rekstraraðilar flugvéla í millilandaflugi noti aðstöðu flugvallanna úti á landi.

Þegar þetta er í lagi og ef við náum jafnaðarverði mun staða þeirra sem efla vilja flugþjónustu á Egilsstöðum og Akureyri styrkjast. Ég tek einnig undir brtt. frá samgn. um að bæta Bakkaflugvöll eins og lagt er til. Ég trúi því að með þeirri lagfæringu sem fram kemur í nál. verði eldsneytisafgreiðslan í lagi og að fyllsta öryggis verði gætt við geymslu á flugvélaeldsneyti.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði hér áðan. Miðað við þær aðstæður sem eru í dag þegar innanlandsflugið hefur smátt og smátt verið að leggjast af, litlu flugfélögin hafa verið að gefast upp við að halda uppi áætlunarflugi á minni staði, þá minnkar viðhald á þessum flugvöllum og þeir verða smám saman ónýtir. Þess vegna er mikilvægt að líta á flugsamgöngur sem og almenningssamgöngur, horfa á þetta sem eina heild, samgöngur á landi og í lofti.