Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 20:58:47 (7084)

2000-05-08 20:58:47# 125. lþ. 108.28 fundur 312. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# þál. 16/125, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[20:58]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er komin til síðari umr. þáltill. nokkurra þingmanna Sjálfstfl. um skipan nefndar sem fengi það hlutverk að móta tillögur um sveigjanleg starfslok. Þáltill. sama efnis var til umfjöllunar á hinu háa Alþingi fyrir um 12 árum en hún var samþykkt í apríl 1989. Í kjölfarið var skipuð nefnd sem fékk þetta verkefni en nefndin lauk aldrei störfum. Sams konar þáltill. hefur verið endurflutt hér áður af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. og henni var vísað til nefndar og umsagnaraðila en hlaut ekki afgreiðslu. Þess vegna er það fagnaðarefni að þáltill. er komin inn í hið háa Alþingi á ný og til síðari umr.

Það er miður að nefndin sem skipuð var á sínum tíma skyldi ekki hafa lokið störfum, þetta var tímabær tillaga þá. Hún er enn þá meira viðeigandi nú þar sem skilningur á málinu hefur aukist í gegnum árin. Að öllu jöfnu hættir fólk reglubundnum launuðum störfum á vinnumarkaði um sjötugt og má í því sambandi benda á að opinberum starfsmönnum, bæði embættismönnum sem almennum launamönnum í starfi hjá hinu opinbera, er skylt að hætta störfum þegar þeir hafa náð því aldursmarki.

[21:00]

Þetta er jafnframt hin almenna regla á almennum vinnumarkaði þótt vitanlega sé þar um einhver frávik að ræða í einstökum tilvikum. Ýmis önnur réttindi, t.d. í almannatryggingum og lífeyrissjóðakerfinu, eru jafnframt bundin við þessi aldursmörk eða 67 ára aldurinn. Hins vegar er langalgengast að fólk sé hætt störfum er það nær 70 ára aldri burt séð frá vilja, hæfni, getu og heilsu viðkomandi.

Viðhorf eldra fólks til vinnu hér á landi eru athyglisverð og vinnuhefð er sterk meðal þjóðarinnar. Kannanir, sem gerðar hafa verið á viðhorfum eldra fólks á undanförnum árum, hafa leitt í ljós að það metur vinnuna mikils vinnunnar vegna og vill halda áfram launuðum störfum meðan heilsa og kraftar leyfa. Þessi viðhorf endurspeglast enda í virkri þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði hér á landi og sker hún sig töluvert úr í samanburði við önnur lönd. Í niðurstöðum könnunar á fjárhagslegum undirbúningi fólks fyrir æviskeiðið eftir starfslok, sem unnin var af Gallup í mars 1999, kom fram að 47% Íslendinga sem eru eldri en 67 ára vilja eða vildu hætta að vinna um sjötugt eða seinna.

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa hugmyndir um sveigjanleg starfslok fengið aukna athygli og ekki síst með hliðsjón af því að eldri borgarar í dag búa almennt við betri heilsu og geta vænst að ná hærra aldri en foreldrar þeirra, kynslóðin á undan þeim. Sú kynslóð sem nú er komin á hefðbundinn eftirlaunaaldur eða er að færast yfir á þetta æviskeið gerir meiri kröfur til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu en þeir sem á undan þeim fóru. Þegar að auki er tekið tillit til þess að öldruðum fer hratt fjölgandi á næstu árum, á árinu 2000 eru 65 ára og eldri um 11,6% af þjóðinni en stefnir í að vera tæplega 20% af þjóðinni eftir 30 ár, þá er augljóst að það er þjóðfélagslegt hagræði af því að verða við óskum og kröfum fjölmennra hópa eldri borgara og þeim verði gefinn kostur á sveigjanlegum starfslokum.

Þess vegna tel ég það mikið fagnaðarefni að þessi þáltill. um sveigjanleg starfslok er komin hingað inn í þingið aftur og ég geri ráð fyrir því að hún fái brautargengi og fagna því sérstaklega.