Þjóðlendur

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 21:19:59 (7091)

2000-05-08 21:19:59# 125. lþ. 108.4 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[21:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar ég hlusta á umræðuna um frv. um þjóðlendur núna er það kemur til afgreiðslu þingsins eftir að hafa fengið umfjöllun í hv. allshn., hafandi í huga umræðuna frá því að þjóðlendufrumvarpið hið fyrra var afgreitt, umræðuna um skiptingu sveitarfélaganna upp á jökla og um auðlindir í jörðu, fer ég að skilja hvernig á því stendur að hér hefur um áratugi verið beðið eftir því að leitt væri til lykta hvað sé sameign þjóðarinnar á landi og hvað sé eign annarra.

Frá því ég kom fyrst inn á þing hef ég hlustað á umræðuna um þessi mál. Þegar við afgreiddum umdeilt mál, sveitarstjórnarfrv., þ.e. að sveitarfélög skyldu ná upp á hálendi og upp á jökla, las ég ýmislegt sem hefur verið tekið til meðferðar í þessum sal á liðnum árum. M.a. las ég þá frv. Björns Fr. Björnssonar alþingismanns, sem flutti frv. um að afréttirnir skyldu falla undir sveitarfélögin. Í umræðu um það mál og annað sem flutt var á sama vetri boðaði hann að meira yrði ræktað upp og afréttirnir nýttir í ríkari mæli en verið hefði og þess vegna væri svo mikilvægt að færa þá undir sveitarfélögin. Allt sem sagt var í því máli af hálfu Björns Fr. Björnssonar var í þá átt að það yrði að vera umráðaréttur yfir landinu. Þegar við afgreiddum sveitarfélagafrv. og skiptingu landsins í sveitarfélög upp á jökla var vísað til þess að í raun væri fyrir löngu búið að skipta landinu öllu upp í sveitarfélög, það hefði verið gert þegar afréttirnir voru færðir undir sveitarfélögin. Því var oft haldið fram hér.

Ég þori að fullyrða að menn voru að eigin mati að gera smábreytingar hér í þessum sal þegar þeir samþykktu áðurnefnt þingmannafrv. sem fór órætt til nefndar í efri deild þar sem einn maður tók til máls, gagnrýndi það og varaði við afleiðingunum. Frv. fór svo í hina deildina og var afgreitt þar umræðulaust. Það tók frv. tíu daga frá því að það kom inn, að fara til nefndar, í gegnum báðar deildir og fá afgreiðslu. Menn hafa á engan hátt gert sér grein fyrir þeim skrefum sem þeir voru að stíga inn í framtíðina, þeim vanda sem síðan hefur verið við að etja um hvaða land sé eign þjóðarinnar og hvaða land sé annarra.

Þegar þetta mál var rætt hér í þingsal fyrir fáum dögum þá hlustaði ég á umræðurnar og á gagnrýni sem var eins og framhald af fundi sem haldinn var á Suðurlandi. Ég hlustaði á hæstv. landbrh. viðhafa gagnrýni á hæstv. fjmrh. vegna kröfugerðar óbyggðanefndar á fyrsta svæðinu sem tekið er til meðferðar og kröfugerðar. Sighvatur Björgvinsson hélt þá ágæta ræðu sem ég ætla ekki að endurtaka en ég hvet þingmenn til að kynna sér hana. Þar fór hann yfir hugmyndafræðina á bak við að landið, óbyggðirnar, séu sameign okkar og auðlind. Hann fór ásamt frsm. nál. við 2. umr. yfir það hvaða ferli hafði verið samþykkt með lögunum um þjóðlendur sem hefst með kröfugerð óbyggðanefndar. Hann fjallaði um hvaða ferli ætti sér stað þar til málunum lyki. Ég vildi óska þess að þegar sú umræða fór fram hefðu verið fleiri þingmenn í salnum. Ætli það hafi ekki verið fjórir eða fimm hv. þm. sem hér hlýddu á þessa ræðu?

Nú fáum við hér tillögu um að það verði að breyta lögunum þannig að fjmrh. verði ekki falið að sinna verkefninu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar heldur skuli þar vera fjölskipað vald, starfshópur með tilnefningum landbrh., umhrh., iðnrh. og félmrh. Ég verð að segja að eftir 2. umr. sem ég hlýddi á finnst mér þetta kannski ekki mjög mikil friðartillaga. Ég ætla bara að láta nægja að hafa þá lýsingu, að öðru leyti ætla ég ekki að fara yfir málflutning Jóns Bjarnasonar.

Það fer ekki hjá því að við að fylgjast með umræðum við 2. umr. og því hvernig tekið er á málum hér að maður spyrji: Hver gætir hagsmuna landsmanna? Af hverju erum við ekki í ríkari mæli að tala um hvað við eigum saman og hvað er þjóðareign heldur en að standa í því pexi sem við höfum orðið vitni að og á ekkert skylt við rammgerða pólitík, um hvað sé landsmanna og hvað sé annarra?

Fyrir rúmu ári var lagt fram stjfrv. um þjóðlendur. Þetta stjfrv. um þjóðlendur hafði allt aðra stöðu en hin tvö frv. sem héngu saman við það. Það var alveg ljóst. Það mátti ekki afgreiða eitt þeirra nema hin tvö væru afgreidd. Ekkert þeirra mátti geyma, þau héngu saman eins og þríburar. Tvö þeirra voru umdeild og gífurleg átök um þau en þetta frv. forsrh. um þjóðlendur var stutt af fulltrúum allra flokka og stjórnarandstöðunnar ekki síður en stjórnarinnar. Með því var loksins í augsýn lagasmíð um það sem menn höfðu kallað eftir líklega frá því fyrsta nefndin var sett á upp úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga árið 1945, ef ég man það rétt.

Þegar samstaða hefur verið um að setja slík lög, um að nú sé komið að því að koma á ferli sem menn geti sæst á þannig að sett sé fram krafa fyrir hönd ríkisins, lesist landmanna, okkar allra og síðan sé reynt að leiða til lykta hver eigi óbyggðirnar og landið, hver eigi jarðirnar og hvar þær endi, er undarlegt að umræðan skuli þróast eins og hún hefur gert bæði við 2. og 3. umr. um þetta frv. Ég harma það, herra forseti, en mér finnst það afturför hjá Alþingi Íslendinga hvernig alþingismenn ræða almennt um auðlindir landsmanna.

Við höfum tekið þær fyrir í aðskildum frv. Við höfum tekið fyrir stjórn fiskveiða og tekist á um hver eigi auðlindina, óveiddan fisk í sjónum. Við höfum tekið fyrir auðlindir í jörðu, umráðarétt yfir þeim og tekist á um það af því þar er rétturinn færður svo ótæpilega til einstaklinga. Nú erum við að taka fyrir í þinginu í kvöld hvernig fara skuli með auðlindir á hafsbotni. Boðað er að fyrir verði lagt frv. hæstv. iðnrh. um hvernig skuli hugsanlega fara með olíu í landi eða á landgrunni. Að lokum er hér endurskoðun á lögunum um þjóðlendur. Ég vildi óska þess að við værum uppteknari af því að leiða til lykta hvaða land skuli teljast eign þjóðarinnar.

Mér hefur fundist, þó ég sé ekki alltaf hrifin af þeim stjfrv. sem hér koma fram, mjög ásættanlegt hvernig þessi mál hafa verið leidd í lög. Ég hef stutt það, bæði þjóðlendufrv. sem komu fram fyrir rúmu ári og þær umbætur sem ætlunin er gera á þessu frv. núna. Fyrst og fremst er ég upptekin af landi í þjóðareign. Ég mundi aldrei vilja ganga yfir þann sem á ótvíræðan rétt en hins vegar er ljóst að á síðustu áratugum hafa menn gert tilkall til lands sem vafasamt er að þeir eigi. Við ætlum að leiða það til lykta með því ferli sem gert er ráð fyrir í þessum lögum og það styð ég, herra forseti.