Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:44:09 (7113)

2000-05-08 22:44:09# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og tel æskilegt að við tökum um það ákvörðun að ljúka þinghaldi fljótlega. Eins og fram kom í máli hv. þm. hefur þingfundur staðið frá því í morgun, frá klukkan hálfellefu, en að auki hafa þingmenn verið að störfum í þingnefndum og í öðrum störfum tengdum þinginu frá því snemma í morgun. Rætt hefur verið um að ljúka þinghaldi um hádegi á fimmtudag og styð ég það, en að sjálfsögðu á þeirri forsendu að tekin verði um það ákvörðun hvaða mál verði látin bíða og hvaða mál eru talin það brýn að við hröðum þeim í gegnum þingið.

Enn eru á dagskrá í kvöld nokkur mál, sum mjög umdeild mál og ég held að það þjóni ekki nokkrum tilgangi að halda umræðu áfram fram á nótt. Ég held að miklu hyggilegra væri að við þingflokksformenn settumst niður og færum að ræða forgangsmál í þinginu. Ég held að það mundi öðru fremur greiða fyrir þingstörfum og auðvelda okkur að ná því markmiði, sem ég tel okkur öllum sameiginlegt, að reyna að ljúka þinghaldi um hádegi á fimmtudag.