Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:48:07 (7115)

2000-05-08 22:48:07# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að orðlengja þá beiðni mína að við skoðum hvort ekki sé orðið tímabært að ljúka þessum fundi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um að ekki væri óvanalegt að sitja lengi að þegar komið væri fram á þennan tíma.

Við erum alltaf að tala um að breyta vinnubrögðum. Við höfum verið að breyta vinnubrögðum ár frá ári. Hver þingvetur hefur verið frábrugðinn hinum á undan, af þeim sem ég hef setið hér, af því að við höfum verið að þróa þingstörfin. Sem betur fer eru kvöldfundir færri en áður og næturfundir nær óþekktir. Það er ekki vegna þess að málin séu ekki jafnumdeild og áður heldur vegna þess að við viljum öðruvísi vinnubrögð.

Þingmaðurinn nefndi að enn væru fjögur mál sem hann teldi að ætti að ljúka af 37 málum á dagskrá. Ég vil vekja athygli á því. Við höfum verið að fjalla um 37 mál í dag. Við höfum afgreitt í atkvæðagreiðslu allnokkur mál sem hafa verið umdeild og ágreiningur um. Ég minni á að stjórnarandstaðan hefur ekki tekið ósæmilega langa umræðu um neitt af þeim. Ég bið þá sem hafa verið lengi hér á þingi að líta í eigin barm. Þeir muna vafalítið allir þá tíma er þeir töluðu lengi og töfðu jafnvel þinghaldið í umdeildum málum.

Ég vil benda á þetta, herra forseti, því til stuðnings að við höfum verið að breyta áherslum okkar og vinnubrögðum.