Þingstörf fram að sumarhléi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 22:51:45 (7117)

2000-05-08 22:51:45# 125. lþ. 108.93 fundur 493#B þingstörf fram að sumarhléi# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 125. lþ.

[22:51]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hef ekki langa þingreynslu en þó það langa að ég veit að þegar umræður í hv. Alþingi fara að snúast mikið um það sem verið hefur til umræðu núna síðustu mínúturnar þá gengur hér hægt við þau störf sem Alþingi er ætlað að sinna. Ég tel ekki ástæðu til að ætla að það muni liðka fyrir eða flýta afgreiðslu mála að mana menn í umræður um þau, eins og hv. þm. Kristinn Gunnarsson gerði hér áðan.

Það mun auðvitað ekki standa á okkur að ræða um þau mál sem eru hér á dagskránni. Ég geri ráð fyrir því að sumt af þeim muni taka dálítið langan tíma. Ég nefni bara dæmi ólympísku hnefaleikana. Ég held að það sé ágætisdæmi um mál sem menn þurfa örugglega töluvert langan tíma til þess að fara vandlega yfir. Það er átakamál og skiptar skoðanir um það. Einnig gætu orðið skiptar skoðanir um mál sem varðar tannheilsu Íslendinga. Eins og fram hefur komið eru mörg má á dagskránni sem langan tíma mun taka að fara yfir, sérstaklega ef það er ekki gert í góðum friði hér í sölum hv. Alþingis.

Ég held að ástæða sé til að reyna að hafa samkomulag um þinghaldið, hve langt menn ætli að komast í dagskránni og hvaða mál eigi að afgreiða. Ég hvet til þess að horft verði til þessa áður en umræður fara hér að snúast um formsatriði, hvaða tíma menn hafi til starfa og hvaða mál eigi að taka til umræðu hér úr ræðustólnum. Samningar um slíka hluti nást yfirleitt ekki með ræðuhöldum hér úr ræðustól.

Ég hvet hæstv. forseta til að huga að þessu. Gert er ráð fyrir því að hér verði þrír kvöldfundir í röð. Ég vek athygli á því. Það er brot á reglum sem giltu meðan ég var á þingi á þarsíðasta kjörtímabili. Það var aldrei að kvöldfundir væru haldnir þrjú kvöld í röð. Nú er gert ráð fyrir því. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að menn hugi að því að alþingismenn hafi möguleika á því að hvílast og hafi sæmilega skímu í kollinum þegar þeir taka til við málagrúann sem fram undan er á næstu dögum.