Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:02:05 (7184)

2000-05-09 13:02:05# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:02]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið misvísandi skilaboð hjá mönnum ef menn þurfa að greiða atkvæði með tillögum sem eru allt öðruvísi en tillögur sem þeir hafa lagt fram sjálfir. Mér finnst óþægilegt að greiða atkvæði með tillögum um að gera hlutina allt öðruvísi, svo að ég taki sem dæmi þá tillögu að úthluta bátum veiðiheimildum á allt annan hátt þegar fyrir liggja tillögur frá okkur um annað kerfi og aðrar aðferðir við að koma þessum verðmætum og réttindum í hendur þeirra sem þurfa að nota þau. Þess vegna er þetta niðurstaðan.

Við vitum að það liggur fyrir að það er vilji meiri hlutans að ekkert verði gert í þessum málum í vetur. Við vitum líka að það er ekki vilji meiri hlutans að samþykkja þær tillögur sem hér liggja fyrir, brtt. frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Árna Steinari Jóhannssyni. Það mun því ekki breyta miklu hvort Samfylkingin situr hjá við afgreiðslu þessara tillagna. Það er einungis gert til samræmis við þau mál og þær tillögur sem við höfum lagt fyrir hv. Alþingi.