Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:05:34 (7186)

2000-05-09 13:05:34# 125. lþ. 109.32 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:05]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allir flokkar hljóta að þurfa að svara því hvernig þeir telja að best sé að gera þessa hluti þegar kemur að því samningaborði sem vonandi verður til. Við höfum ekki séð að það sé til í öllum málum á hv. Alþingi. En við skulum segja að vonandi verði til. Þá kemur auðvitað í ljós hve fast menn halda á grundvallaratriðunum sem þeir hafa lagt undir þá stefnumörkun sem þeir hafa komið sér upp í málunum.

Ég get sagt bara eitt um þetta. Við teljum að margt sé til umræðu hvað varðar stjórn fiskveiða. En það er bara eitt sem getur ekki verið til umræðu og það er að halda áfram að mismuna þeim sem sækja sjó á Íslandi. Samfylkingin hefur a.m.k. mótað þá stefnu að það hljóti að verða að víkja við þessa endurskoðun. Menn hljóta að leita eftir leiðum sem tryggja jafnræði og jafnrétti hvað varðar nýtingu á þessari auðlind. Annað er svo sem allt til umræðu frá hendi Samfylkingarinnar hvað þessi málefni varðar.