Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:56:49 (7280)

2000-05-09 22:56:49# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið voru vissulega skiptar skoðanir um eitt og annað við samningagerðina, enda ýmsir og ólíkir hagsmunir bænda. Hv. þm. Pétur Blöndal kemur og ýtir undir þetta og ýtir undir að ástæða sé til að vera óánægður og tekur undir með fáeinum fjölmiðlum sem reyna að gera samninginn og stuðning við bændastéttina og byggðir í landinu tortryggilegan. Hann segir að menn sjái ekki staðreyndir og sjái ekki raunveruleikann. Ég vísa því til föðurhúsanna. Það er hv. þm. sem sér ekki staðreyndirnar og raunveruleikann í byggðum landsins og hvað varðar almennan stuðning við landbúnað í öðrum löndum. Við styðjum ekkert meira en almennt gerist í öðrum löndum.

Hann nefndi verðskerðingargjaldið. Það er ekki á sauðfé heldur á nautgripi og kemur sauðfjársamningnum ekki að öðru leyti við en því að fyrirsvarsmenn búgreinarinnar, þ.e. Landssambands kúabænda, komu og óskuðu eftir því að fá að hækka verðskerðingargjaldið. Síðast þegar þeir komu til Alþingis báðu þeir um að gjaldið yrði lækkað, það er meira gaman að því þegar þeir koma og biðja um að það sé lækkað heldur en hækkað, en það er greinin sjálf sem biður um þetta til þess að vera í betri tengslum við markaðinn og markaðsmálin. Það er til þess að vera betur meðvitaður um hvernig vindar blása á markaðnum sem hv. þm. hefur ofurtrú á.

Ég vil svo einnig geta þess að hv. þm. Pétur Blöndal hefur möguleika á að láta gott af sér leiða þegar hæstv. landbrh. kemur hér með frv. um gæðastýringuna og álagsgreiðslurnar eftir tvö ár og vænti þess að hann muni þá taka til máls og hafa e.t.v. kynnt sér betur þessi mál.