2000-05-10 02:26:40# 125. lþ. 111.21 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil á þessu stigi máls gera athugasemd við eina grein frv. sérstaklega. Í frv. er vissulega að finna ýmislegt sem horfir til bóta. En atriðið sem ég vildi gera athugasemd við og óska eftir skýringum á er 12. gr. frv. en þar er kveðið á um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga. Segir hér, með leyfi forseta:

,,Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga er sú starfsemi slökkviliðs sem hefur eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir.``

Síðan segir í lok greinarinnar, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að fela skoðunarstofum eftirlit skv. 1. mgr., eftir því sem við á.``

Eldvarnaeftirlit er með öðrum orðum hægt að fela einkareknum skoðunarstofum og þætti mér vænt um að fá að heyra hvað hér vakir fyrir stjórnarmeirihlutanum og þeim sem standa að frv. með þessari lagagrein. Í því sambandi þá minni ég á þá áráttu þeirrar ríkisstjórnar sem fer með völdin í landinu að reyna að koma öllu lifandi og dauðu á markað og þar með talinni þjónustu sem hingað til hefur verið talin almannaþjónusta og er almannaþjónusta og á að mínum dómi að heyra undir opinbera aðila.