Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 15:40:42 (46)

1999-10-05 15:40:42# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að formaður fjárln. skuli bera sig undan því að fá fyrirspurnir í andsvari. Þetta form er einmitt til þess að geta brugðist við. Við getum það ekki við ræðu hæstv. fjmrh. af því að þar er alltaf búið að ákveða talsmann fyrir fram.

Varðandi stóru sjúkrahúsin þá er nægilegt að segja já, ef á að sameina þau. Ég skil þetta svar hans þannig að menn séu ekki komnir að því að vilja sameina. Varðandi bensínið hefði einfaldlega verið nægilegt að nefna hversu há fjárhæðin er af því sem hér kemur fram í fyrri hluta fjárlaganna.

Ég spyr í tilefni þess að 2000 fjölskyldur missa barnabætur á þessu ári vegna fjárlaganna, m.a. vegna þess að skerðingarmörkin eru ekki endurskoðuð miðað við verðlagsþróun, hvort það verði gert, hvort skerðingarmörkin verði endurskoðuð. Mér finnst miður að hafa ekki fengið nein svör við spurningunum. Formaður fjárln. er kunnur að góðum vinnubrögðum og ég hefði talið að spurning mín um bensíntekjurnar, upplýsingar um þær, lægju algerlega fyrir. Þess vegna vonast ég eftir því að seinna í umræðunni verði þetta upplýst.

Ég mundi gjarnan líka vilja benda á það, af því að ég var að bregðast við því hversu ánægður formaður fjárln. er með fjárlögin, að áfram er Framkvæmdasjóður fatlaðra skertur um helming og ekki farið að þeirri stefnumörkun að erfðafjárskattur renni til þessa mikilvæga verkefnis. Starfsmenntasjóðurinn er og óbreyttur þrátt fyrir að eitt af stóru málunum nú sé endurmenntun, starfsmenntun og það að fara inn í nýja öld á nýjan hátt og skoða það og bregðast við því að reiknað er með að á komandi tímum verði hver einasti maður að skipta um starf mörgum sinnum á ævinni og endurmennta sig til nýrra starfa.