Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 16:26:02 (49)

1999-10-05 16:26:02# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Í stuttu andsvari verður ekki komið inn á öll þau atriði sem hv. þm. nefndi og ástæða væri að fjalla um. Ég mun eingöngu koma að hinum almennu atriðum sem hann nefndi í fyrri hluta ræðu sinnar. Það er eðlilegra að einstakir fagráðherrar svari fyrir sín ráðuneyti. ,,Er afgangurinn á traustum grunni eða er hann byggður á sandi?`` spurði hv. þm. Um þetta fjallaði ég ítarlega í minni framsögu. ,,Er teygt á forsendum til hins ýtrasta?`` spurði hann í framhaldinu og gaf sér þá fullyrðingu sem svar að svo væri.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson hélt því hins vegar fram að forsendur í fjárlagafrv. væru mjög varfærnislegar. Það er öllu nær sanni en fullyrðingar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Ég gat þess líka að við hefðum reiknað út hver afgangurinn væri miðað við að ekki væru þessi áhrif uppsveiflunnar í hagkerfinu. Staðreynd er að niðurstaðan úr því er sú að hér væri verulegur afgangur eigi að síður. Þrátt fyrir það nýtur ríkissjóður vitanlega góðs af góðærinu svokallaða í landinu og af hagstæðu efnahagsumhverfi. Vitanlega, skárra væri nú ef ríkissjóður nyti ekki góðs af því eins og aðrir. Vandinn er að ákveða hvað á að gera við þessa peninga. Á að kasta þeim út í eyðsluna til þess að tryggja að það verði grundvallarhalli aftur þegar á móti blæs, eins og ég skil hv. þm. að hann vilji gera, þ.e. að taka þennan afgang, 15 millj., og setja hann beint út í eyðsluna til þess að tryggja að upp komi mikill halli næst þegar á móti blæs. Þessu segi ég nei við. Þetta á ekki að gera. Þetta væri mjög misráðin stefna.

Sama er að segja um ýmislegt annað varðandi þessar fosendur. Þær eru byggðar á því sem best er vitað og þar sem vafi er höfum við farið þá leið að taka frekar varlegri forsendur heldur en óvarlegri.