Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:14:20 (73)

1999-10-05 18:14:20# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Fyrst með niðurgreiðslur á rafhitun. Það er rétt að þær 600 millj. standa þar inni. En 600 millj. stóðu líka í fjárlagafrv. fyrir þetta ár og það voru tölur sem menn voru með þegar við vorum að tala um þetta í þeirri nefnd sem ég hef vitnað í. Miðað við þær tölur sem voru þá inni í fjárlagafrv. vantaði 750 millj. til að fara niður í meðaldýran hitunarkostnað. Þessar 600 millj. eru engin viðbót í því. Þetta er niðurgreiðsla á öllum orkugjöfum, alveg sama hvort það er rafhitun eða hitaveita.

[18:15]

Það hefur verið rætt um um að húshitunarkostnaður, sem í flestum tilfellum er svona hár hjá íbúum landsbyggðarinnar, eigi að lækka niður í meðaldýra orkuhitun. Til þess vantaði 750 millj. samkvæmt skýrslum sem lágu fyrir þessari nefnd, nefnd sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, flokksbróðir hæstv. fjmrh., stýrði. Það er ekki sjá að í þessu fjárlagafrv. sé stigið einn þriðja í átt að því takmarki.

Sama á í raun og veru við um jöfnun námskostnaðar. Ég þekki það sjálfur að við þær hækkanir sem hæstv. fjmrh. vitnaði til þá jókst ekki það sem íbúar landsbyggðarinnar, sem sækja um langan veg í framhaldsskóla, eiga að fá. Þar vantar enn upp á. Það var líka í tillögum þessarar nefndar og líka á borðum okkar þegar við vorum að ræða þetta. Þá voru þær tölur þekktar sem hæstv. fjmrh. var að vitna til. En samt sem áður vantar aukna upphæð í þennan málaflokk.

Mér sýnist því að enn einu sinni sé verið að leika sér með tölur og villa um en það stendur að innan þessarar nefndar voru þessar tölur á borðum. Um þær var þverpólitísk samstaða, þar á meðal hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni og Tómasi Inga Olrich.