Öryggi greiðslufyrirmæla

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 12:18:17 (164)

1999-10-07 12:18:17# 125. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A öryggi greiðslufyrirmæla# (EES-reglur) frv. 90/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta eru hlutir sem mönnum hefðu mátt vera ljósir með því að lesa sér betur til í þessu öllu saman. En efnið er kannski ekki beinlínis á alþýðumáli ef svo má að orði komast og sumt af þeim hugtökum og setningum sem hér eru ekki hversdagslegur texti. Manni fyrirgefst þannig vonandi þó að maður skilji þetta ekki allt saman við fyrsta yfirlestur.

Ég spurði sérstaklega um hvort skýrt væri til hvaða aðila þetta tæki. Ég lét mér til hugar koma að hugsanlega væru einhver jaðartilvik, t.d. óbeinir þátttakendur í þessum kerfum, hugsanlega einhverjir einyrkjar í fjármálastarfsemi sem rækju reksturinn í sínu eigin nafni. Nú veit ég ekki hvort slíkum tilvikum sé yfirleitt til að dreifa en maður gæti hugsað sér að einhverjir greiðslumiðlarar, verðbréfamangarar eða einhverjir slíkir aðilar, jafnvel hugsanlega lögfræðingar sem sjá oft um greiðslur og hafa með vissum hætti ákveðna greiðslumiðlun á sínum snærum, t.d. sem þjónustuaðilar fyrir fyrirtæki, gætu verið beinir eða óbeinir aðilar að svona kerfi. En hæstv. ráðherra telur að svo sé ekki og ekki um þau tilvik að ræða, þ.e. einstaklinga sem þar með geti orðið persónulega gjaldþrota. Það einfaldar þá málin. Að öðru leyti mundi það þá vera verkefni Seðlabankans að útkljá það, sbr. 3. gr.

Sömuleiðis sé þá skýrt að þessi lög upphefji ákvæði almennu gjaldþrotaskiptalaganna, þ.e. hvað riftunarákvæðin snertir þegar greiðslur eru komnar inn í greiðslumiðlunarkerfið eða lokaðar þar af. Það kemur mér að vísu á óvart að þá skuli ekki þurfa að gera einhverjar breytingar á hinum lögunum um leið en kannski gengur þetta svona, að upphefja einfaldlega ákvæði þeirra brútalt með ákvæðum sem ganga yfir hinn.

Ég endurtek að lokum þá skoðun mína að þörf sé á að fara í endurskoðun á almennu lögunum um gjaldþrotaskipti. Ég held reyndar að slík endurskoðun sé löngu tímabær.