Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:06:12 (189)

1999-10-07 14:06:12# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst illa komið fyrir mínum gamla skipstjóra, hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að vera að agnúast yfir skipun í þessa nefnd, sem er skipuð ekki síst út af baráttu manna sem hafa viljað breytingar í sjávarútvegskerfinu. Spurningin er að sjálfsögðu alltaf sú hverjir eigi að skipa þessa nefnd. En það er ekki aðalatriði ef við getum verið sæmilega sáttir og þeir menn sem eru í nefndinni, sem eru kunnáttumenn í greininni og ráðagóðir, hafi fram að þessu hafa sýnt það í störfum sínum. Ég held að hvað það varðar hafi tekist mjög vel til af hálfu hæstv. sjútvrh. að nefndin er vel skipuð, vel mönnuð og engin ástæða er til að ætla annað en að tillögur hennar verði gott veganesti fyrir hæstv. sjútvrh. fyrir tillöguflutning inn í hv. Alþingi.

Að sjálfsögðu er það árangurinn sem skiptir mestu og fyrir fram eigum við ekki að gefa okkur að nefndin geti ekki komið fram með neinar tillögur öðruvísi en að Frjálslyndi flokkurinn eigi þar fulltrúa.

Ég segi, herra forseti, að við eigum að spyrja að leikslokum og við eigum að gefa þessum fulltrúum, þessum nefndarmönnum tækifæri til að vinna þau störf sem þeim eru falin því að fyrir fram er ekki annað séð en að þeir eigi að geta skilað því sem um er beðið.