Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:43:07 (223)

1999-10-07 15:43:07# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil við þessa fyrri umræðu um þáltill. á þskj. 7, um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, sem flutt er af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum, lýsa því yfir eindregið af hálfu Frjálslynda flokksins að hann fylgir þessari tillögu. Ég mun ekki hirða um að tína til rök þessa vegna svo augljós sem þau mega vera, heldur vísa til ítarlegrar greinargerðar og get gert þær röksemdir þess vegna að mínum.

Ég álít það glapræði, háskasamlegt glapræði ef út í þessa framkvæmd verður ráðist án þess að farið verði að þessari tillögugerð.

Standist þessi framkvæmd hins vegar umhverfismat og falli undir þær skuldbindingar sem við Íslendingar kunnum að öðru leyti að vera seldir undir, þá ber auðvitað að hlíta þeirri niðurstöðu. Ég þarf áreiðanlega ekki og vonandi ekki að minna þingmenn á að verði meiri hluti fyrir því á hinu háa Alþingi að ráðast í þessa virkjun þótt ekki verði farið að þessari tillögu, þá ber okkur að sjálfsögðu að hlíta þeirri niðurstöðu.