Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:46:19 (268)

1999-10-07 17:46:19# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hann er nú dálítið skrýtinn þessi málflutningur að það megi virkja til þess að framleiða vetni sem gæti e.t.v. orðið raunhæft eftir 20--30 ár samkvæmt upplýsingum mínum. Kannski verður það fyrr. Vonandi verður það fyrr. En virkjanirnar eru þær sömu. Það verða sömu umhverfisáhrifin á Eyjabakka hvort sem rafmagnið er notað til þess að framleiða vetni eða ál. Er það ekki allmikið framlag til umhverfismála í heiminum að framleiða léttmálm með rafmagni? Verða þessir léttmálmar eins og álið ekki mjög ríkjandi í framtíðinni og geta orðið til þess að spara t.d. orku í bílum? Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir.

Nú heyri ég á hv. þm. að hann getur hugsað sér að fara í þessar virkjanir. Ég skildi hann áður þannig að hann gæti alls ekki hugsað sér það, en þá er forsendan sú að það verði framleitt vetni, að það sé stóriðja sem hann geti fellt sig við en hann geti ekki fellt sig við aðra stóriðju. Ég á mjög erfitt með að skilja þetta, hv. þm.

Hv. þm. talar um aðra virkjunarkosti á Austurlandi. Jú, menn hafa talað um að virkja Bessastaðaá. Menn hafa talað um að virkja Fjarðará. Menn hafa talað um að virkja Fossá í Berufirði. Allt eru þetta virkjunarkostir sem koma sjálfsagt til greina. En það liggur alveg ljóst fyrir að veruleg umhverfisáhrif eru af öllum þessum virkjunum. Þar er verið að tala um allstór miðlunarlón uppi á hálendinu og verulegt rask á fallegum stöðum. Það liggur því ekki alveg í augum uppi að þessir virkjunarkostir séu nokkuð miklu betri en í Jökulsá í Fljótsdal.