Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:41:36 (287)

1999-10-07 18:41:36# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:41]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek algjörlega undir það sem kom fram í ályktun þeirri sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir las upp áðan. Nema það að við búum í þessu landi og við verðum að lifa á náttúrugæðum þess. Við eigum stórkostlega náttúru, því neitar enginn. Og okkur þykir vænt um þessa náttúru, en það breytir ekki því að við ætlum að lifa í landinu og við ætlum að lifa á náttúrugæðum þess.

Við eigum að nýta þessa náttúru og það munum við gera á einhvern hátt en kannski ekki nákvæmlega eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir óskar eftir að verði gert. Ég held að rétt sé að ég vitni aðeins í orð bæjarstjóra Austur-Héraðs sem sagði:

,,Vonandi verður það ekki fólkið, sem þekkir hreyfingu mest af tæknivæddum hlaupabrautum þrekþjálfunarstöðvanna, kyrrðina best við rauð umferðarljós gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins og þögnina helst vegna rafmagnsleysis á álagstímum, sem ráða mun mestu um framtíð okkar í þessum efnum.``

Það er afskaplega nauðsynlegt að menn kynni sér málin, menn þekki þá náttúru sem við ætlum að nýta og það er það sem við Austfirðingar höfum farið fram á.