Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:32:18 (402)

1999-10-12 15:32:18# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Með lögum frá Alþingi 1998 var samþykkt að eignarhald í sjávarútvegi, þ.e. eign í sameign landsmanna, kvótanum, yrði takmörkuð. Ég álít að það hafi verið heillaskref að stíga þó í þá átt að hafa samþjöppunina ekki of mikla og þannig yrði til stýritæki sem stjórnvöld gætu farið eftir ef menn hefðu áhyggjur af þeirri þróun sem menn sáu fyrir að var á leiðinni þá.

Ég held að út af fyrir sig sé heldur ekki eðlilegt að vera með of mikla stýringu í þessu efni. Þetta getur verið varasamt í hvora átt fyrir sig. Ég held því að að þessu leyti hafi tekist vel til af hálfu löggjafans og eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh. virðist ekkert benda til þess að þau ákvæði laganna hafi ekki haldið. Það bendir því til þess að ekki þurfi að hafa þær miklu áhyggjur af eignarhaldi í sjávarútveginum sem mér finnst koma fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar.

Ég held að í rauninni sé mjög sterkt fyrir íslenskan sjávarútveg að fyrirtæki eins og Burðarás og mörg önnur fyrirtæki þjappi sig saman. Það hefur sýnilega leitt til þess að hlutabréf í þeim fyrirtækjum hafa hækkað stórlega og trú á sjávarútveginum er mikil meðal þjóðarinnar sem er gríðarlega mikilvægt fyrir sjávarútveginn í heild sinni.

Það er líka mjög mikilvægt að mínu áliti í þeirri þróun sem hlýtur að verða á allra næstu árum að eignarhald í sjávarútvegi verði opnað þannig að erlendir aðilar geti eignast hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum alveg eins og innlendir. Því er mjög mikilvægt að það sé trú á íslenskum sjávarútvegi á Íslandi, ekki bara erlendis. Þetta er allt saman mjög mikilvægt og ég bendi á að fyrirtæki hafa verið stofnuð út um landið, t.d. frá Grindavík, sem hafa skapað mikla möguleika og hafa staðið fyrir sínu.