Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:45:06 (407)

1999-10-12 15:45:06# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Allir sem hafa kynnt sér þessi mál og frv. til laga um ættleiðingu eru sammála um mikilvægi frv. fyrir væntanlega kjörforeldra erlendra barna og öryggi þeirra barna í framtíðinni. Eina ágreiningsefnið sem ég hef orðið var við og virðist vera uppi er um heimild fólks í staðfestri samvist til að ættleiða börn. Sú umræða og það álitaefni á ekki heima í umræðu um þetta frv. Eigi hins vegar að breyta lögunum um staðfesta samvist og heimila fólki af sama kyni og í staðfestri samvist að ættleiða börn, þá er það lagatæknilega rétt að gera undir þeim lögum, þ.e. með breytingu á lögunum um staðfesta samvist en hrófla ekki við lögum um ættleiðingu.

Það má ekki tefja lagasetningu um ættleiðingu. Við vitum að fjöldi Íslendinga bíður eftir fullgildingu Haag-sáttmálans. Hann er ekki hægt að fullgilda fyrr en þetta frv. er orðið að lögum. Sú fullgilding treystir tengsl Íslands og þeirra landa sem gefa börn sín hingað til lands og opnar þar að auki dyr til margra fleiri landa um börn til ættleiðingar. Við þurfum því að hafa meðferð þessa frv. skjóta og örugga og fjalla um það í allshn. með skjótum hætti.

Hvað varðar lög um staðfesta samvist þá höfum við vissulega gengið hvað lengst í því að tryggja réttarstöðu fólks sem býr í staðfestri samvist. En við höfum lögfest ákvæði um sameiginlega forsjá sem hvergi hafði áður þekkst í lögum fyrr en það varð hér. Danir breyttu þessu reyndar í sumar með lögunum um staðfesta samvist og ættleiðingu.