Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:17:29 (433)

1999-10-12 17:17:29# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég minna hv. síðasta ræðumann á að hann hefði átt að vitna rétt í Helsinki-sáttmálann í greinargerð sinni með þessu frv. sem liggur frammi. Það eitt gerir hans mál nokkuð snúið og jafnvel tortryggilegt.

Hv. þm. sagði áðan að það væri mikilvægt að þeir sem kæmu að málinu væru óháðir rannsóknaraðilum en segir jafnframt að honum finnist rétt að þeir komi flestir frá Háskóla Íslands sem er auðvitað rannsóknarstofnun.

Varðandi lýðræðið sem hv. þm. talaði um áðan þá spurði hann hvort gerð hefði verið könnun á því hvort þeir sem nú sætu í vísindasiðanefnd hefðu verið með eða móti gagnagrunni. (ÖJ: Eða ættu hagsmuna að gæta.) Eða ættu hagsmuna að gæta. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu getur fólk haft hvaða skoðanir sem það vill almennt í þjóðfélaginu. Það er lýðræði og það eru ekki gerðar neinar sérstakar kannanir eða rannsóknir á því.

Hv. þm. spurði líka hvort gerðar hefðu verið kannanir á því hvort farið hafi verið ólöglega með sjúkragögn út af sjúkrahúsunum. Það hefur heldur ekki verið gerð könnun á því þar sem við felum stjórnendum sjúkrahússins að bera ábyrgð á því.

Hér hefur ýmislegt komið fram sem mér finnst vera dálítið sérstakt og einkum þegar jafnvirðulegur þingmaður og hér stóð uppi áðan leggur fram frv. sem er með greinargerð með svo miklum göllum sem ég benti á áðan.