Endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:38:32 (453)

1999-10-13 13:38:32# 125. lþ. 8.1 fundur 27. mál: #A endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að nú eigi að fara í það verk sem hér var spurt um, að endurskoða almannatryggingalögin með tilliti til skatta og lífeyrissjóða. Eins og lögin eru í dag þá er á vissu tekjubili yfir 100% jaðarskattur á þá sem njóta greiðslna frá almannatryggingunum. Kerfið er algerlega komið úr takti við samtímann. Tryggingalögin eru eins og stagbætt gatslitin flík sem ekkert lag er á.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort fleiri komi að vinnu þeirri sem þegar er farin af stað en stjórnarliðar, hvort stjórnarandstaðan eigi þarna einhverja aðkomu. Ég spyr hvenær þeir hyggist klára þetta því að málið er brýnt. Svo vona ég, herra forseti, að þetta verði ekki sama sýndarmennskan og á síðasta kjörtímabili þar sem nefnd var sett á laggirnar en aðeins kölluð saman tvisvar á öllu kjörtímabilinu til að vinna að þessu verki. Það var öll framkvæmdin á áformum sem getið var um í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar. Ég fagna því að verkið sé hafið og vonast til að það verði unnið að því ötullega og það klárað fljótt.