Aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:48:48 (483)

1999-10-13 14:48:48# 125. lþ. 8.7 fundur 31. mál: #A aðgerðir til að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Á vegum sjútvrn. hefur starfað starfshópur um umhverfis- og orkumál í sjávarútvegi. Starfshópurinn hefur stýrt vinnu vegna umsóknar Tækniskólans um styrk vegna þróunar á hermi til að mæla bestu orkunýtingu fiskiskipa. Þá hefur starfshópurinn athugað raforkunotkun í höfnum. Síðast en ekki síst lætur starfshópurinn vinna fyrir sig skýrslu sem á að lýsa eldsneytisnotkun flotans með kortlagningu á flotanum og sókn hans. Kynnt hafa verið drög að skýrslunni fyrir starfshópnum og má búast við endanlegri skýrslu á næstunni. Slík skýrsla er grundvöllur þess að unnt sé að kanna möguleika á að draga úr eldsneytisnotkun flotans. Má hugsa sér að það verði framtíðarverkefni starfshópsins. Hvernig útblástur frá fiskiskipum þróast í framtíðinni er að miklu leyti háð sóknarmynstrinu. Við verðum að nýta auðlindir okkar og ný sóknarfæri geta auðvitað leitt til aukins útblásturs. Markmiðið í framtíðinni er að auka aflaverðmæti á sóknareiningu og beita við sóknina hagkvæmustu tækni með tilliti til orkunotkunar. Kortlagning starfshópsins á fiskiskipaflotanum mun gefa okkur tækifæri til að meta stöðuna og sjá betur hvað hægt er að gera.