Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:04:41 (490)

1999-10-13 15:04:41# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég hefði nú talið æskilegt að hæstv. forsrh. væri í salnum.

(Forseti (GuðjG.): Dokum við örlitla stund. Hæstv. forsrh. er væntanlegur á hverri stundu.)

Herra forseti. Ástæða þess að ég hef beðið um þessa utandagskrárumræðu er nýbirtar tölur Hagstofu Íslands um búferlaflutninga fyrstu níu mánuði ársins. Þessar tölur segja okkur að 1.320 manns fluttu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins á þessu tímabili, eða u.þ.b. fimm manns á degi hverjum að meðaltali. Þegar við er bætt flutningum frá útlöndum til höfuðborgarsvæðisins þá fluttu rúmlega 2.000 manns fleiri til höfuðborgarsvæðisins en frá því.

Í þingræðu hæstv. forsrh. síðasta haust kom fram að áætlaður kostnaður við hvern nýjan íbúa höfuðborgarsvæðisins væri á bilinu 3--5 millj. kr. fyrir sveitarfélögin. Miðað við þessar forsendur er kostnaður höfuðborgarsvæðisins um 6--10 milljarðar á þessu ári vegna búferlaflutninga fólks frá landsbyggðinni. Og nú er svo komið að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa á nýloknum aðalfundi sínum séð ástæðu til þess að samþykkja sérstaka ályktun um að fela nýkjörinni stjórn samtakanna að taka upp beinar viðræður við ríkisvaldið um þann mikla kostnað sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa frammi fyrir verði búferlaflutningar fólks af landsbyggðinni svipaðir og verið hefur hingað til.

Já, hv. þm. heyra rétt. Að hugsið sér þessa ályktun og allt það sem er hvati að gerð hennar. Þarf nokkuð fleira inn í þessa umræðu? Þessi ályktun er þungur áfellisdómur á byggðastefnu núverandi stjórnarflokka, bæði þingmenn þeirra og ráðherra. Á valdaárum þeirra hafa tæplega níu þúsund manns flutt frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég segi og skrifa níu þúsund manns.

Formaður Framsfl., hv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, má eiga það að hann viðurkenndi opinberlega fyrir kosningar að byggðamál væru sá málaflokkur sem ríkisstjórnin hefði staðið sig verst í. Það ber að virða slíka hreinskilni. Hér áður fyrr var hægt að líta á Framsóknarflokkinn sem landsbyggðarflokk en það er ekki lengur hægt. Svik og gleymska framsóknarmanna í byggðamálum er alger. Sjálfstæðismenn yppa öxlum og hafa einnig gleymt landsbyggðinni enda uppteknir við að breiða út fagnaðarerindið um góðærið og reiknaðan metafgang á væntanlegum fjárlögum.

Ríkisstjórnarflokkarnir verða að vakna af sínum þyrnirósarsvefni. Þyrnirós svaf í eina öld en stjórnarflokkarnir mega ekki leyfa sér það að sofa út öldina. (Gripið fram í.) Hvar er t.d. aðgerðin um jöfnun húshitunarkostnaðar og jöfnun námskostnaðar sem byggðanefnd forsrh. var öll sammála um sem fyrstu aðgerðir í vor? Það er ekkert í fjárlagafrumvarpinu sem bendir til þess að efnd verði þessi loforð hæstv. forsrh., byggðamálaráðherra Íslands, úr þessum ræðustól. Þess vegna spyr ég: Hefur eitthvað breyst? Voru þessar tillögur eingöngu ætlaðar sem einnota tillögur til að nota á tyllidögum rétt fyrir kosningar? Ég vil ekki trúa því en skýringu hæstv. forsrh. vantar.

Á Alþingi eru oft samþykktar tillögur og lög sem íþyngja íbúum landsbyggðarinnar, svo sem breyting á þungaskatti á síðasta þingi sem stórhækkaði flutningskostnað út á land og dæmi eru um allt að 15--60% hækkun eftir umfangi sendinga. Stórhækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu vegna hinna miklu búferlaflutninga og þenslu hækkar vísitölu neysluverðs og þar með skuldir landsbyggðarfólks vegna íbúðarhúsnæðis á sama tíma og fasteignaverð á landsbyggðinni fellur og erfiðleikar eru við að selja þær fasteignir, jafnvel á útsölu. Þessi aðferð við vísitöluútreikninga er hrein hringavitleysa og þegar við það bætist að fasteignagjöld á landsbyggðinni eru reiknuð út frá íbúðaverði í Reykjavík og nágrenni, þá keyrir um þverbak.

Herra forseti. Búferlaflutningar á Íslandi undanfarin ár eru þjóðarvandi en ekki landsbyggðavandi. Þetta er vandamál allra Íslendinga og eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda um þessar mundir.

Herra forseti. Að lokum langar mig til að leggja fram eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. forsrh., ráðherra byggðamála á Íslandi.

1. Hvað vega þessir búferlaflutningar mikið í þenslu og verðbólgu ársins? Hefur ríkisstjórnin í raun gefist upp fyrir þessari þróun?

2. Hefur ríkisstjórnin ekkert hugleitt það að draga úr þenslu og verðbólgu með einhverjum marktækum aðgerðum í byggðamálum, aðgerðum sem duga til að stöðva þennan þjóðarvanda?

3. Er hæstv. forsrh. ánægður með árangur sinn í byggðamálum?

Skjótvirkar alvöruaðgerðir í byggðamálum eru besta og fljótvirkasta aðgerð til að draga úr þenslu og verðbólgu í okkar ágæta landi. Íslendingar bíða eftir þessum alvöruaðgerðum, jafnt landsbyggðarfólk sem íbúar höfuðborgarsvæðisins. Og nú er svo komið í þessum málum að forseti lýðveldisins gerir þessi mál að sérstöku umræðuefni við setningu Alþingis í haust og biskupinn yfir Íslandi sér sig einnig knúinn til þess að ræða þessi mál ítarlega við setningu kirkjuþings. (Gripið fram í.) Ríkisstjórn og alþingismenn verða taka sér tak í þessum málaflokki, hv. þm., fyrrverandi alþýðubandalagsmaður og núverandi framsóknarmaður, Kristinn H. Gunnarsson. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til skjótvirkra aðgerða. Allar leiðir verður að skoða, jafnt sértækar aðgerðir sem aðrar.

Herra forseti. Á þessum degi eru u.þ.b. fimm manns að flytja frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.