Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:16:15 (492)

1999-10-13 15:16:15# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það sem hefur verið að gerast hin síðari ár er meira en búferlaflutningar af því tagi sem við þekktum hér á árum áður. Þeir búferlaflutningar eða sá flótti sem við sjáum núna minnir einna helst á flóttann eftir þjóðvegi 66 í Bandaríkjunum á árum áður þegar uppflosnaðir bændur, sem höfðu verið keyptir af bújörðum sínum af stórfyrirtækjum, voru á flótta til hins fyrirheitna lands því þeir gátu ekki búið lengur á þeim stöðum sem þeir höfðu komið sér fyrir. Um þetta skrifaði John Steinbeck rithöfundur eina sína frægustu bók, Þrúgur reiðinnar. Og þrúgur reiðinnar vaxa nú í brjóstum þess fólks sem er á flótta. Í hópum þeirra sem eru á flótta eftir þjóðvegi 66 á Íslandi í dag eru tveir hópar fólks. Annars vegar fólk, örfáir einstaklingar, með fullar hendur fjár sem selt hafa burtu lífsbjörgina frá heilu byggðarlögunum og síðan hinn mikli fjöldi sem verður að yfirgefa heimili sín, eignalaus, allslaus, hefur ekki einu sinni lengur réttinn til að leita sér bjargar því búið er að selja hann frá byggðunum. Hæstv. ríkisstjórn ber hér mikla sök því það er hún sem ber ábyrgð á þessu kerfi. Og það er algjörlega ástæðu- og ábyrgðarlaust að láta eins og hæstv. forsrh. talaði hér áðan að þetta væru bara eðlilegar afleiðingar af þeim tíma sem við lifum á. Flóttinn eftir þjóðvegi 66 í dag frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins er að verulegu leyti því að kenna að hæstv. ríkisstjórn lætur það líðast að stórfyrirtæki kaupi einyrkjana upp af jörðum sínum, þeim jörðum sjávarins sem fyrirrennarar þeirra hafa nýtt í gegnum mannsaldra og haldið hefur lífinu í landsbyggðinni.