Framlagning frv. til lokafjárlaga

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:37:03 (516)

1999-10-14 10:37:03# 125. lþ. 9.91 fundur 68#B framlagning frv. til lokafjárlaga# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil þakka þingflokksformönnunum tveimur sem hér hafa tekið til máls fyrir viðbrögð þeirra við tilkynningu minni. Ég tel eðlilegt að greina þinginu frá því þegar aðstæður eru eins og þær eru núna. Ég hygg reyndar að allir þeir sem sátu á Alþingi þegar ný lög um fjárreiður ríkisins voru afgreidd geri sér fulla grein fyrir því að þar er mikið af nýjungum sem koma þarf í rétt horf í fyrsta skipti sem þær eru afgreiddar. Það er mjög mikilvægt að ganga þannig frá öllum þessum málumn að þar skapist góð fordæmi til framtíðar. Við erum einmitt að vinna að því og auðvitað er margt af því þegar komið fram eins og við sjáum á breyttri uppsetningu fjárlagafrv. og mörgu öðru. Þess vegna þarf að vanda þessa vinnu mjög vel og starfsmenn Ríkisbókhalds og ráðuneytisins eru önnum kafnir við það.

Varðandi spurninguna um hvort þetta muni hafa áhrif í þinginu á þessu hausti, þá tel ég að svo muni ekki verða. Það er ekki um það að ræða að hér vanti neinar upplýsingar. Ríkisreikningurinn sjálfur barst á borð allra þingmanna í ágúst sl. Þar eru allar niðurstöðurnar en það þarf að ganga frá frv. til lokastaðfestingar á þeim fjárveitingum sem umfram eru eða undir. Auk þess þarf að ljúka afgreiðslu fjárveitingavaldsins sjálfs, Alþingis, á fjárreiðum ársins 1998 með formlegum hætti. Þetta mun að mínum dómi ekki hafa nein áhrif á fjárlagavinnuna fyrir næsta ár né heldur þá vinnu við fjáraukalagafrv. sem hefjast þarf von bráðar.