Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 13:55:11 (559)

1999-10-14 13:55:11# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er því miður óhugnanleg staðreynd að verslun með fólk, fyrst og fremst konur en líka börn og karla, hefur farið vaxandi á síðustu árum. Í umræðu um kynlífsiðnaðinn heyrist oft að þetta sé fyrst og fremst mál sem varðar umræddar konur og viðskiptavini þeirra, það sé frjálst val kvennanna að taka að sér störf af þessu tagi. Þessi rök heyrast ekki síst frá okkur körlunum. Það er í fyrsta lagi umdeilanlegt hvort það sé frjálst val þegar djúp neyð rekur manneskjur, konur eða karla, til að selja líkama sinn. En í öðru lagi liggur ótvírætt fyrir að í ótrúlega mörgum tilvikum er um hreint mansal að ræða, konur eru beinlínis hnepptar í ánauð, þær eru beittar ofbeldi til að þvinga þær til starfans, þær eru beittar hótunum gagnvart fjölskyldum þeirra, foreldrum og börnum, til þess að þvinga þær til hlýðni, þær eru sviptar vegabréfum, skilríkjum og fjármunum til þess að neyða þær til þess að selja sig svo aðrir, yfirleitt karlmenn, geti hagnast.

En ógeðslegasta tilbrigðið, herra forseti, við sölu á fólki er sala á börnum til þess að svala fýsnum fullorðinna. Á netinu eru auglýstar kynlífsferðir til Asíu og beinlínis greint frá því að þar sé hægt að útvega börn til kynlífs. Það er skylda okkar Íslendinga að berjast gegn þessum ófögnuði með öllum tiltækum ráðum. Það getum við t.d. gert með því að feta í fótspor þeirra þjóða sem hafa gert það að alvarlegu lögbroti ef þegn í ríki þeirra verður uppvís að því að kaupa sér slíka þjónustu utan heimalandsins.

Herra forseti. Íslendingar eru því miður líka sekir um þetta. Ég var fyrir skömmu ritstjóri dagblaðs þar sem einn blaðamanna minna fjallaði af alvöru og ábyrgð um barnaníðinga á Íslandi. Skömmu síðar fékk hann þetta kort frá Tælandi með nöktum drengjum frá hinum íslenska barnaníðingi og á kortinu stóð m.a.: ,,Ég fann ekki nema þessa mynd, en ég tók sjálfur sérstakar myndir sem þér munu líka.`` Þess má svo geta að við komumst að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn málsins að þessi barnaníðingur héldi sér uppi á Tælandi á bótum frá íslenska ríkinu.