Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 13:57:26 (560)

1999-10-14 13:57:26# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli. Ég er í einu og öllu sammála því sem fram kom í hennar máli. Margt fleira hefur komið fram við þessa umræðu sem staðfestir alvarleika þessa máls. Við höfum óyggjandi heimildir fyrir því að verslun með fólk á sér stað á Íslandi.

Forseti Lettlands var hér á ferð um daginn og greindi frá óþægilegum staðreyndum um hingaðkomu stúlkna frá Eystrasaltslöndunum og fleiri löndum. Við verðum að taka þetta alvarlega. Við getum ekki látið sem ekkert sé vegna þess að með þögninni erum við að samþykkja að þetta viðgangist áfram í okkar þjóðfélagi.

Það er ekki bara þannig að karlar séu að borga með sér til að fá að njóta kynlífs, svo aumt sem það nú annars er. Í skjóli vændis á Íslandi sem á sér stað í tengslum við erótíska staði og fleiri staði vissulega, þrífst margt fleira og jafnvel verra. Við vitum það ósköp vel, lögreglan veit það, fólk sem bundið er þagnarskyldu, læknar, prestar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og konurnar hjá Stígamótum, fólk veit hversu alvarlegt málið er. Fjölmiðlar flytja líka tíðindi af innflutningi fíkniefna á og í þessum vesalings stúlkum sem hingað koma.

Herra forseti. Eigum við að bjóða undirheimastarfsemi velkomna til landsins til að spilla þjóðfélagi okkar? Ég segi nei. Vissulega getur verið erfitt að taka á þessu. Það getur verið erfitt að berjast við þá sem telja þessa starfsemi tákn um frelsi eða nútímalegt mannlíf. Ég tel þó að það sé hlutverk okkar sem ábyrgra stjórnmálamanna að setja við þessu skorður. Og hvar setjum við mörkin? Hvað getum við látið leiða okkur langt í virðingarleysi fyrir manneskjunni? Ég er sannfærður um að við verðum fyrr eða síðar að taka á þessum málum því ásóknin vex og heldur áfram. Við skulum taka á þessu fyrr en síðar. Viðskipti með fólk, einkum konur, á sér stað vegna eftirspurnar. Þarna er eftirspurn vegna tiltekinna þarfa. Það væri nær að setja upp meðferðarstofnanir fyrir ,,perra`` heldur en að láta þetta viðgangast. Við skulum stoppa þetta með lagasetningu.