Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:55:39 (577)

1999-10-14 14:55:39# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Þó að það hafi hugsanlega ekki verið tilgangurinn með flutningi þessarar þáltill. að láta andstöðuna við NATO móta hana, þá hefur það nú ekki alveg tekist. Það er eitthvað sem kallað er á ensku ,,Freudian slip`` í því plaggi sem bendir til þess að það mótist einmitt svolítið af andstöðunni við NATO. Það er heldur ekkert óeðlilegt því að þingmenn sem þetta flytja eru í andstöðu við aðild okkar að NATO.

Ég vil aðeins benda á að reiknað er með því að gera lögfræðilega úttekt á álitamálum sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í Júgóslavíu og þjóðréttarlegum afleiðingum þeirra. Greinargerðin varpar að sjálfsögðu ákveðnum lit á þáltill. og það ber að skilja þáltill. í ljósi grg. Til hvers væri greinargerðin ef ekki ætti að gera það? En í grg. stendur, einmitt í sambandi við þetta lögfræðilega álitamál: ,,Óhætt er að segja að með loftárásunum á Júgóslavíu hafi NATO afhjúpað eðli sitt sem árásarbandalag og tekið sér sjálfdæmi í öryggis- og varnarmálum sem snerta grannríki bandalagsins.`` Og síðan er haldið áfram í svipuðum dúr. Þá hljóta þeir sem eru stuðningsmenn NATO að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að takast á við þann vanda sem er að styðja uppbyggingu í Júgóslavíu ásamt skoðanabræðrum sínum sem stóðu að þeirri ákvörðun með NATO-ríkjunum um að grípa til þessa örþrifaráðs og vinna það í samstarfi við þá eða hvort þeir vilja hafa með sér í því samstarfi þá aðila sem eru á móti Atlantshafsbandalaginu og eru nú afskaplega líklegir til þess að gera allt starf Atlantshafsbandalagsins eins tortryggilegt og þeir mögulega geta. Það er í rauninni það sem verið er að fara fram á með þáltill., þ.e. að þeir sem eru á móti Atlantshafsbandalaginu fái að komast að málinu til þess að gera starf Atlantshafsbandalagsins eins tortryggilegt og frekast er hægt. Ég skil svo sem vel að menn vilji gera það en ég vil þá vænta þess að hv. flutningsmenn þáltill. geri sér grein fyrir því að í gegnum þetta sést hver tilgangurinn er með þessu.